08.07.1918
Efri deild: 60. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Jóhannes Jóhannesson:

Af ástæðum þeim, sem jeg tók fram við 1. umr. þessa máls, sje jeg mjer ekki fært að greiða atkvæði með brtt. á þgskj. 467, þótt jeg játi, að hún sje aðgengilegri en 7. gr. frv., sem feld var burt við 2. umr. Það er ekki svo að skilja, að jeg geti ekki unnað síldarútgerðarmönnum af fá einhvern hluta af ágóða þeim, sem verða kann af síldarkaupum þeim, sem hjer er um að ræða, heldur af ástæðum þeim, sem jeg tók fram við 1. umr. Mun það sýna sig, ef málið kemur seinna fyrir þing, sem jeg á sæti á.