10.07.1918
Neðri deild: 67. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Pjetur Jónsson:

Jeg ætla mjer fyrir hönd bjargráðanefndar að mæla nokkur orð um þetta frv., en þau verða þó fá, því að jeg býst við, að háttv. þingdm. sje málið allvel kunnugt, fyrst og fremst af þeirri greinargerð, sem fylgdi hinu upphaflega frv. og svo af umr. í háttv. Ed., sem jeg býst við, að ýmsir þeirra hafi hlustað á, svo og við eigin athugun á frv. því, sem fyrir liggur.

Aðaltatriðið í frv. þessu, sem komið er frá háttv. Ed., er sem sje það, að landssjóður taki að sjer ábyrgð á ákveðnu verði á 100.000 tunnum af síld.

Þetta er aðallega gert vegna hinna smærri útgerðarmanna í síldarútveginum, og einnig fyrir tilmæli fleiri manna, því að eins og kunnugt er, voru nokkrir síldarútvegsmenn af Norður- og Vesturlandi komnir hjer saman og höfðu samið við bjargráðanefndir beggja deilda um að bera þetta mál fram, og ákváðu þeir að síðustu, að sætta sig við frv. það, sem borið var fram í háttv. Ed. Að vísu höfðu þeir hugsað sjer ábyrgð landssjóðs nokkuð meiri og viðtækari. En þegar þeir fundu, að háttv. þm. stóð svo mikill stuggur af allri verulegri ábyrgð í þessu máli, þá sáu þeir, að því mundi ekki veiða fram komið, nema þeir slægju sem mest mætti af kröfum sínum. En eins og um málið var búið í háttv. Ed., var síst af öllu mikil hætta á því, að skaði gæti orðið af síldarkaupunum.

Í greinargerðinni fyrir því frv., er þetta atriði einmitt vandlega athugað, og þar er gert ráð fyrir því að við gætum selt 50.000 tunnur, á 85 kr. hverja, til Svíþjóðar, það verða alls 4.250.000 krónur, og að til Ameríku mætti selja 25.000 tunnur, svo að „netto“-verðið yrði 50 kr. á tunnu. Þá yrði afgangurinn 25.000 tunnur, sem þyrfti að selja á 20 kr. hverja, til þess að fá jafna upphæð við það, sem frv. ákveður að taka ábyrgð á, en það er 60 kr. tunnan, eða 6.000.000 kr. alls.

Þetta veit jeg, að háttv. þm. hafa athugað, og dæma það kann ske hver á sinn veg. Að minsta kosti sýnist mjer það svo, að dómarnir hljóti að verða nokkuð misjafnir um mál eins og þetta. En í mínum augum var ekki svo mikið athugavert við málið, vegna þess að jeg taldi það víst, að þetta fengist fyrir þá síld, sem selja átti til Svíþjóðar. Og svo í annan stað væri það harla ólíklegt, að ekki seldist töluvert af síld til Ameríku, fyrir ekki lægra verð en áætlað var. En engu að síður hygg jeg þó, að nokkrir hafi verið hikandi, vegna þess að enn þá voru eftir 25.000 tunnur. En rjett í þeim svifunum, sem verið var að leggja málið fyrir háttv. Ed., fjekst vissa fyrir því, að við gætum fengið enn hærra fyrir síldartunnuna í Svíþjóð, svo að það næmi að minsta kosti 10 kr. á tunnu, og hygg jeg þá, að upp frá því hafi menn ekki getað litið svo á, að hættan yrði sjerlega mikil.

En nú hafa fengist enn þá betri fregnir, svo að telja má líklegt, að síldin komist þar í enn þá betra verð, og að öllum líkindum verði ekki minna en 20 kr. hækkun á tunnunni.

Ef það kæmi nú til að muna 20 kr. á tunnu, sem seld yrði til Svíþjóðar, þá lækkar að sama skapi verðið á þeim tunnum, sem eftir eru. Með öðrum orðum, 50.000 tunnur til Svíþjóðar gera 5.250.000 kr.. Þá verða ekki eftir í landinu nema 50.000 tunnur, sem standa í 750.000 kr., og við gerum okkur von um að nokkuð megi selja af til Ameríku.

En þá kemur annað atriði til, og það er, að í frv. er ákveðið, að landssjóður taki að sjer að ábyrgjast greiðslu á andvirðinu, ekki að eins strax og andvirði síldarinnar kemur inn frá Svíþjóð, heldur líka á þeim helmingnum, sem óseldur kann að vera, og að landssjóður skuli hafa greitt síldarútvegsmönnum alt í árslok.

Það mun hafa verið nokkur ágreiningur um þetta atriði í háttv. Ed, milli stjórnarinnar og háttv. frsm. nefndarinnar þar, og hefir nefndin í Nd. hugsað sjer að gera nokkra miðlun þar á milli. Koma þær brtt. fram við 2. umr.

Þá er eitt ákvæði í þessu frv., viðvíkjandi ágóða þeim, sem verða kann af kaupum landssjóðs á síldinni, og ætla má, að kynni að verða ekki svo lítill

Það er í upphaflega frv. ákveðið, að 3/4 af ágóðanum skyldi renna til seljenda, en 1/4 til landssjóðs. Hvernig sem því hefir nú verið farið í háttv. Ed., þá var þessu breytt á þá leið, að það skyldi látið bíða til næsta þings að ákveða, hvernig skifta skyldi ágóðanum. Jeg skal geta þess, að frv. var rætt einnig með tilliti til þessa atriðis í bjargráðanefnd Nd., og virtist nefndinni rjettara að ákveða þegar, hvernig skifta skyldi ágóðanum, heldur en að það væri látið veru óákveðið til næsta þings, og væri þá heldur betra að slaka dálítið til frá frv. því, sem borið var fram í háttv. Ed. Brtt. um það efni eru nú komnar fram, en jeg ætla ekki að ræða þær að þessu sinni.

Vona jeg, að þetta mál verði látið ganga til 2. umr., og vildi jeg um leið skjóta því til hæstv. forseta, að taka það sem fyrst á dagskrá, því að nauðsynlegt er að því sje hraðað sem mest.