11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Pjetur Jónsson:

Jeg ætla mjer ekki í orðakarp um frv. þetta. En mjer þótti leiðinlegt, að háttv. 1. þm. Arn. (S. S.), sem er vitanlega sá maðurinn á þingi, sem er ókunnugastur þessu máli, af því að hann var ekki viðstaddur, er það var undir búið, og hefir þess vegna ekki haft tækifæri til þess að kynna sjer það nema síðan í fyrradag, skyldi ráðast á það. Tvo undanfarna mánuði hefi jeg kynt mjer málið, og þó er jeg ekki eins öruggur um mína sannfæringu, eins og hann virtist vera um sína. Og þetta mun stafa af því, að jeg hefi sennilega sjeð fleiri hliðar á málinu en hann, og það gert mig hikandi.

Jeg get síst verið því samþykkur, að þm. sjeu hjer að vinna óforsvaranlegt verk með því að flytja frv. þetta. Víst er það, að jeg hefi ekki treyst mjer að magna mig svona upp á móti því á einum degi.

Það er að vísu rjett, sem háttv. þm. (S. S) sagði, að síldarútvegurinn er keppinautur landbúnaðarins. En það kemur ekkert þessu máli við. Vjer tölum um síldarútveginn sem keppinaut landbúnaðarins, þegar alt gengur sinn vanagang, þegar reka má útveginn óhindrað og verð á síld er sæmilegt. En nú horfir svo við, að það gerir ekki neinn usla í landbúnaðinum, þótt landssjóður kaupi 100 þús. tunnur af síld til hjálpar landbændum. En hitt ætti hver maður að geta sjeð, að ef síldarútvegurinn hyrfi með öllu úr sögunni, væri það mikið tjón fyrir landið, þó að ekki sje til annars en hafa gjaldeyri fyrir lífsnauðsynjar. 100 þús. tunnur eru áætlaðar á 6 milj kr., og er ilt að vera án þeirra. Auðvitað stendur og fellur síldarútgerðin ekki með þessu frv., því að nú lítur nokkru betur út um þennan atvinnuveg en áhorfðist. Síldveiðum verður þess vegna ekki yfirleitt hætt, þótt þingið láti málið afskiftalaust. En sumir treysta sjer ekki til þess, að reka síldarútveg í sumar, einkum hinir smærri útgerðarmenn, ef þeir eru ekki vissir um sölu og verð fyrir fram.

Með þessu frv. hlaupum vjer undir bagga með hinum veikbygðari, en það eru ekki þeir, sem mest fólkið hrifsa til sín, heldur hinir sterkari, sem tunnurnar hafa og stærsta útgerðina. En þeir menn, sem vjer hjálpum með þessu, eru þeir, sem hafa tunnur og hafa ef til vill nú þegar ráðið fólk til sín, en eru svo í vandræðum með að selja það sem aflast. Jeg ætla svo ekki að svara þessu atriði frekar.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S) vjek þá að því, að hann feldi sig ekki við það atriði 4. gr., sem kveður á um, í hvaða hlutfalli skuli kaupa síldina Þetta er margyfirvegað mál, hvernig ætti að skifta kaupunum á þessum 50.000 tunnum, hvort ætti að skifta þeim eftir því, hversu margar tunnur hver útgerðarmaður ætti fyrirliggjandi hjer á landi, eða þá eftir einhverjum öðrum mælikvarða. Þetta atriði hafði útflutningsnefndin til athugunar og síðar síldarútvegsnefndin. Niðurstaðan verður alt af sú, eftir langa yfirvegun, að best sje að skifta eftir tunnueign í landinu, en þó skuli þeir, sem eiga tunnur og ekki gera út, verða að gefa vel fyrir síldina, sem þeir kaupa, og þetta síðasta er líka trygt í síðari hluta 4. gr. En úr því að það var álitið hallkvæmast, að kaupa síldina í hlutfalli við tunnutal, þá er síðari hluti 4. gr. nauðsynlegur, því að þar er ljett undir baggann með framleiðendunum, með því að gera þeim, er tunnur eiga það að skilyrði fyrir því, að verða hluttakandi í þessu hnossi, að þeir kaupi síldina af framleiðendunum við góðu verði.

Eins og eðlilegt var gerði háttv. sami þm. (S. S.) athugasemd við 7. gr., og vildi hann halda því fram, að úr því að landssjóður yrði að bera þá áhættu, sem þetta hefði í för með sjer, yrði hann og að fá allan gróðann, ef hann yrði nokkur. Jeg hefi frá öndverðu litið svo á, að þetta gæti aldrei komið til nokkurra mála. Landssjóður tæki aldrei á sig svo mikla áhættu, að hann gæti borið hana saman við hugsanlegan gróða. Það er heldur alls ekki ætlunin, að gera þetta að gróðavegi fyrir landssjóðinn, heldur er þetta gert út úr ítrustu neyð og til þess að halda síldarútgerðinni við, svo að atvinnuvegur sá falli ekki í kalda kol. Það er og enginn vafi, að ef þetta yrði til þess, að þessi atvinnugrein gæti staðið með blóma í sumar, þá væri það sú besta björg og dýrtíðarhjálp, sem hægt væri að veita almenningi. Og ef oss tækist að halda framleiðslunni yfirleitt í samræmi við þörfina, þá væri slíkt betri hjálp en nokkuð annað. En vjer höfum, því miður, ekki haft miklu úr að spila til slíkra hluta. En þótt þetta megi telja útlátalítið, þá vil jeg þó ekki, að landssjóður kippi að sjer hendinni.