11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Sigurður Sigurðsson:

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) byrjaði ræðu sína með því að furða sig á því, að jeg ljet í ljós svo ótvíræða skoðun í málinu, þar sem jeg hefði að eins haft mjög stuttan tíma til þess að kynna mjer það. Í tilefni af þessu skal jeg lýsa yfir því, að jeg hefi lesið þau gögn, sem fyrir liggja í málinu, og kynt mjer þau. En jeg hefi ekki gengið í skóla til síldarútvegsmannanna sjálfra eða leitað fræðslu til þeirra. Jeg álít ekki nauðsynlegt fyrir mig að gera það, til þess að afla mjer fræðslu, óháðri öllum málspörtum, sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli.

Jeg ætla ekki að fara langt út í þetta mál, en að eins leyfa mjer að rekja þann hugsanagang, sem fylgt hefir verið í þessu máli hjer á þinginu. Þessi hugsanagangur er á þá leið, að landssjóður kaupi síldina af útgerðarmönnunum fyrir ákveðið verð, til þess að taka af þeim áhættuna og leggja hana á þjóðina í heild sinni. Þetta mun hafa verið meginástæðan til þess, að frv. kom fram. Síðan það kom í ljós, að áhættan mundi ekki verða eins mikil og menn bjuggust við í fyrstu, þá hafa útvegsmennirnir dregið sig sem mest í hlje og vilja eins vel að frv. hverfi úr sögunni. Nú er það aðalástæðan til þess að halda því fram, að það sje nauðsynlegt til þess að jafna sölu síldarinnar niður á framleiðendurna og tryggja það, að þeir, sem eru minni máttar, verði ekki bornir ofurliði. Um þetta get jeg verið meðmælendum frv. alveg samdóma. Það er nauðsynlegt að setja undir þann leka. En það er ofureinfalt mál. Til þess þurfti ekki annað en þingsáltill., er hljóðaði um það, að fela útflutningsnefndinni að takmarka hve mikið hver síldarframleiðandi flytti út af síld. Líka hefði mátt gera við þessu með sjerstöku frv., þar sem ákvæði 4. gr. um skiftingu síldarinnar væru látin haldast.

Því hefir verið haldið fram af tveimur háttv. þm., að þetta frv. beri með sjer bjargráð fyrir landbúnaðinn. Jeg fæ ekki skilið með hvaða rökum er hægt að halda þessu fram. Jeg sje ekki í hvaða sambandi það stendur við þetta frv., þó að í till., sem er næst á dagskrá, sje talað um, að stjórnin sjái um útvegun á síld til skepnufóðurs handa bændum og veiti þeim ívilnun með flutning á henni milli hafna. Sú tillaga kemur ekkert frv. við. Þegar menn því eru að segja, að þetta mál sje bjargráð fyrir landbúnaðinn, þá verð jeg að segja, að með því sje verið að, — ja, nærri því sagt — strá sandi í augu manna í þessu efni. Aðalatriði frv. er, eins og kom svo greinilega fram í ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að liðsinna síldarútvegsmönnum. Háttv. þm. (S. St.) komst einmitt þannig að orði. Jeg sje því enga ástæðu til þess að samþ. frv., að minsta kosti verður það ekki talið nauðsynlegt.

Jeg hefi styrkst í þeirri skoðun síðan jeg talaði síðast, eftir að hafa heyrt ræðu hæstv. forsætisráðh. En það hefir verið sýnt, að það er til leið til þess að jafna sölu síldarinnar niður á framleiðendurna, án þess að skylda landssjóð til þess að kaupa þessar 100.000 tunnur. Frv. hefði ekki átt að fjalla um neitt annað en skiftingu síldarinnar milli útvegsmanna.

Jeg finn svo ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um þetta mál. Jeg var þegar búinn að lýsa skoðun minni á því. Hún hefir ekki að neinu leyti breyst síðan, svo að jeg mun greiða atkv. á móti frv.