11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Pjetur Jónsson:

Út af ræðu hv. 2. þm. Rang. (E. J ), sem flutti fyrirspurn til mín um þá menn, sem ekki selja landsstjórninni þá síld, sem þeir framleiða, hvort þeir muni geta flutt sína síld út sjálfir og þannig kept við landsstjórnina um markaðinn, þá vil jeg benda háttv. þm. (E. J.) á það, að samkvæmt lögum er ekki heimilt að flytja neitt út úr landinu án leyfis landsstjórnarinnar, hvorki síld nje annað. Það er því undir henni komið, hvort hún vill leyfa einstökum mönnum að flytja út síld, með ábyrgðinni á þessum 100.000 tunnum, sem landssjóður kaupir. Jeg geng út frá því, að hún muni engum leyfa útflutning á síld, nema hún sjái sjer borgið með þá síld, sem hún hefir handa á milli.

Hæstv. forsætisráðherra mintist á ýmislegt, sem honum finst athugavert við frv. Meðal annars nefndi hann það, hve margar hafnir væru teknar inn í það, sem afhendingastaðir fyrir síldina. Jeg neita því ekki, að þótt hafnirnar sjeu allar góðar, og vel mætti fá skip til þess að koma á hverja þeirra um sig, þá sje ekki víst að skip, sem flytja síldina út, fáist til þess að koma á þær allar. En það er erfitt að velja úr 3 eða 4 hafnir. Eyjafjörður er nú sjálfsögð útflutningsböfn, því að þar er útvegurinn svo mikill. (Atvinnumálaráðherra: Er ekki meint Akureyri?) Það er ætlast til þess að sama gangi yfir alla útgerðarstaði við Eyjafjörð. Það hefir alt af verið hægt að taka síldina þar alstaðar jafnt. Ef skip tekur þar síld á annað borð, munar það ekkert um að færa sig á milli stöðvanna við fjörðinn. Fjörðurinn allur verður því að teljast sem ein höfn. Það er ekki útlit fyrir, að nein síld verði lögð upp á Akureyri í sumar, sökum plássleysis.

En þar sem ekki varð búist við að fá síldina flutta út frá öllum þeim höfnum, sem síldin er veidd á, þá varð samt verðið að vera jafnt, sem framleiðendurnir fá fyrir hana. Það, sem legst á síldina frá einstökum stöðum, fyrir flutning til útflutningshafnanna, er sameiginlegur kostnaður á allri síldinni, sem landssjóður kaupir, og hækkar hana dálítið í verði, en það getur ekki orðið tilfinnanleg hækkun. Það er ekki heldur líklegt að það þurfi að vera svo mikið, sem flytja þarf til, ef hægt verður að flytja mestalla síldina út áður en ísa fer að leggja að landinu. Eyjafjörður er alveg sjálfsögð útflutningshöfn og þá Ísafjörður. Frá þessum höfnum mun verða reynt að flytja síldina fyrst, og svo fljótt sem auðið er.

Þótt þessi grýla kunni að líta illa út í augum sumra þingmanna, þá verð jeg að álíta, að hún sje ekki mjög hættuleg.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) gat þess, að útvegsmenn kærðu sig nú ekki mikið um það, að frv. gengi fram. Það getur verið að sumir sjeu komnir á þá skoðun; jeg hefi ekki talað við svo marga alveg nýlega. En mjer er kunnugt um það, að þeir sem unnu að undirbúningi þessa máls undir þingið, unnu allir að því með þeirri ósk, að það mætti ganga í gegnum þingið í sem líkastri mynd og þeir gengu frá því. Þar voru fulltrúar bæði fyrir stærri og smærri útvegsmenn, og allir voru á einu máli. Jeg hefi ekki heyrt, að neinn þeirra hafi snúist á móti frv. síðan, enda þótt útlitið fyrir síldarútveginn hafi batnað síðan um daginn.