11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 856 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Fjármálaráðherra (S. E ):

Jeg veitti því ekki eftirtekt fyr en í morgun, að þetta mál væri á dagskrá hjer í deildinni í dag. Þá var orðið of seint að koma með brtt., en jeg hafði ætlað mjer að koma með brtt. um sama efni og brtt. mín, sem feld var í háttv. Ed., það er að segja um greiðslufrestinn. Háttv. bjargráðanefnd þessarar deildar kemur að vísu með brtt., sem fara nokkuð áleiðis í sömu átt, þar sem þeir setja fyrri greiðslutímann þann sama og jeg setti í minni brtt., en síðari greiðslufrestinn nokkru styttri. En jeg verð að halda fast við það, að til 1. júlí sje ekki of langur frestur. Jeg tók það fram í háttv. Ed., að jeg yrði að leggja mikla áherslu á það, frá sjónarmiði landssjóðs, að ekki þyrfti að borga út andvirði síldarinnar fyrir þann tíma, sem landssjóður fær fjeð í hendur. Fyrir útvegsmenn hefir þetta ekki mikið að segja, og margir þeirra leggja ekki sjerstaka áherslu á þetta atriði. Auk þess sem aðalatriðið fyrir þá er, að þegar vissa er fyrir að fjeð verður útborgað á ákveðnum tíma, þá er lánstrausti þeirra að sjálfsögðu borgið í bönkunum.

Fyrir landssjóð skiftir það afarmiklu, ef hann þarf að taka lán til þessara nýju útborgana, og þau gætu numið miljónum.

Samkvæmt því, sem hjer er tekið fram, mun jeg bera fram við 3. umr. brtt. um frestinn, þá sem feld var í Ed.

Jeg ætla svo ekki að fara frekar út í þetta mál. Jeg vildi að eins sýna fram á, að hjer er um verulegt atriði að ræða frá landssjóðsins hálfu.