11.07.1918
Neðri deild: 68. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Pjetur Jónsson:

Jeg vildi að eins minnast á aðalefni málsins í örfáum orðum. Hjer er verið að hlaupa undir bagga með einum atvinnuvegi, með því að landssjóður taki á sig dálitla ábyrgð. En þeir sem fluttu þetta frv. gerðu það ekki fyr en þeir sáu, að ábyrgðin gat ekki orðið stórhættuleg. Aðalábyrgðin er í því fólgin að tryggja útgerðarmönnum sölu á nokkrum hluta af síldarafla þeirra með því verði, er síldin stendur fyrir í landina sjálfu. Annar hluti ábyrgðarinnar liggur í því, að landssjóður leggi fram fje fyrir þann hluta af aflanum, er kynni að liggja óseldur til næsta árs.

Jeg hygg, að ekki geti til þess komið, að landssjóður yrði fyrir fjárhagslegu tjóni af þessu, en ef til vill þyrfti að hafa talsvert fyrir því að útvega fje það, sem nauðsynlegt er. En stjórninni ætti ekki að veitast það erfiðara en útgerðarmönnum sjálfum. Geti þeir fengið bankalán, ætti stjórninni að vera það auðveldara heldur en mönnum, sem hafa lagt mikið í kostnað og eiga mikið í hættu, en hins vegar geta ekki búist við miklum gróða í aðra hönd.

Þetta er aðalatriðið. En ef á að draga úr þessum tilraunum Alþingis með því að heimta, að trygging sje fyrir því, að alt síldarverðið verði goldið áður en landssjóður leggur fram einn einasta eyri, þá finst mjer fult svo sæmilegt að kippa hendinni alveg að sjer.