12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Sigurður Sigurðsson:

Það er aðeins örstutt athugasemd út af þeim orðum, sem háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) ljet falla.

Jeg get lýst yfir því, að jeg hefi ekki, með þeirri brtt. minni um að fella í burtu 7. gr., á nokkurn hátt verið að amast við þessum útvegi, eða vekja stríð milli atvinnuvega landsins. Jeg ann síldarútveginum alls góðs, þótt jeg hins vegar geti ekki gengið inn á þá braut, að landssjóður eigi sjerstaklega að fara að hlaupa undir bagga með honum og taka með því meiri eða minni áhættu. En hitt er aftur á móti mitt álit, að rjettmætt væri, að landbúnaðurinn nyti einhvers góðs af ágóðanum, eða hlunninda af þessum útvegi, því að sá útvegur hefir klórað landbúnaðinum fastast um bakið og valdið honum þungra búsifja. Í sambandi við þetta er það öllum ljóst, þeim sem til þekkja, að það væri því ekki nema eðlilegt og fullkomlega rjettmætt, að landbúnaðurinn nyti einhvers góðs af gróða þessa útvegs, annað hvort beinlínis eða óbeinlínis. Jeg tek þetta fram út af því, sem háttv. þm. (St. St.) sagði, en endurtek það um leið, sem jeg sagði áður, að gagnvart málinu í heild sinni er þetta ekkert aðalatriði.