12.06.1918
Efri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (86)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Guðjón Guðlaugsson:

Framkoma háttv. fjármálaráðherra er ofvaxin mannlegum skilningi. Nú skorar hann á háttv. deildarmenn í hverri ræðu, sem hann heldur — og þær eru margar — að fella brtt, sem bjargráða nefndin ber fram, af eintómri tilhliðrunarsemi og góðvild við hann. Nú veður hann með sömu orðum og áður á móti brtt. nefndarinnar og gáir ekki að því, að síðasta brtt. felur í sjer það, sem hann hefir altaf verið að heimta, sem sje takmark fyrir lána- og styrkveitingaheimildinni. Hámarkið, sem hvorttveggja, styrkur og lán, getur nú náð, er 1.800.000 kr., og ber það vott um fádæma takmarkaða vitsmuni að halda, að allir landsbúar þurfi hjálp á næsta ári, svo að hún komist nálægt því takmarki. Jeg leyfi mjer að kalla það takmarkalausa heimsku, hvort sem það er fjármálaráðherra eða aðrir, sem halda því fram. í sporum fjármálaráðherra mundi jeg hafa greitt atkvæði með brtt. á þgskj. 335, en svo á móti öllum brtt. í heild sinni. Annars verð jeg að lýsa yfir því, að jeg verð að greiða atkvæði á móti frv. ef ekkert af brtt. nefndarinnar verður samþykt. Jeg sje enga ástæðu til að halda, að háttv. Nd. verði fremur á móti brtt. nefndarinnar en þessi háttv. deild kann að verða, og vona jeg, að þær nái því að verða samþyktar, enda þótt háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hafi gengið í lið með stjórninni, og tel jeg, að hann hafi gert það af skilningsleysi, en ekki öðrum lakari ástæðum, þar sem hann er geistlegur embættismaður og vígður.