12.07.1918
Neðri deild: 69. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Stefán Stefánsson:

Það eru að eins örfá orð. Því hefir eiginlega verið svarað af háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), sem jeg þurfti að svara.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) tók það fram, að það væri ekki meining sín, að vilja amast við þessum atvinnuvegi, sjávarútveginum, en það er þó svo, að þessi till. hans getur ekki skoðast á annan hátt, því að hjer er háttv. þm. (S. S.) að taka þann gróða, sem kann að verða á síldarsölunni, beinlínis frá útvegsmönnum. Þetta hlýtur hv. þm. (S. S.) að kannast við.

Þarf jeg svo ekki að tala frekar um það atriði; en þar sem hann var að tala um, að hann vildi ekki láta landssjóð vera að hlaupa undir bagga með þessum útvegi, þá vil jeg benda á, að þetta verður að skiljast á vissan hátt. Hjer er ekki verið að hlaupa undir bagga með öllum útvegsmönnum yfirleitt; þeir sem síst þurfa hjálpar með, myndu hafa getað komið út sínum afla, og sennilega enn meiru, ef þetta frv. hefði ekki komið fram; en það eru hinir fátækari útvegsmenn, sem ekki hafa haft efni á því að kaupa tunnur og salt, heldur orðið að gera samninga við hina ríkari um að kaupa af sjer, — þeir hafa nú, verði þetta að lögum, vissu fyrir því, að þeir samningar geta haldist, sem annars var mjög óvíst um og enda í í mörgum tilfellum óhugsandi.

Það er því nýtt og kynlegt að heyra það, sem háttv. 1. þm. Árn. (S. S) tók fram, að síðari hluti 4. gr. væri sjer mestur þyrnir í augum, því að það er einmitt þessi síðari hluti 4. gr., sem gerir mesta nauðsyn á, að samþ. þetta frv., því að þá er loku skotið fyrir, að hinir efnaðri kaupi síldina mjög lágu verði, eða ekki innan. við 20 krónur tunnuna, sem er tiltekið lágmarksverð fyrir nýja síld; af þessu er það sýnilegt, að það eru smærri útvegsmennirnir, sem hjer er verið að vernda frá óhæfilega miklu verðfalli á þeirra framleiðslu. Þetta verður hátt. þm. (S. S.) að kannast við, að frv. veitir þeim mönnum hjálp, sem helst þurfa hennar með, en gerir hinum stærri síldarútvegsmönnum allmiklu erfiðara fyrir með að geta grætt á þeim smærri óhæfilega.