15.07.1918
Efri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Halldór Steinsson:

Jeg hefi ásamt fleirum gert lítilfjörlega breytingu við frv., og þarf því ekki að vera langorður. Málið horfir nú alt öðru vísi við en þegar það var afgreitt til Nd. Þá var engin vissa fengin um sölu á síld til Svíþjóðar. Jeg greiddi því atkvæði á móti frv. þá. En nú er vís sala á 50 þús. tunnum með góðu verði. Er því áhættan ekki meiri en svo nú, að vel er gerlegt að samþykkja frv. En nokkur áhætta er enn ekki útilokuð; þess vegna á ekki heldur að útiloka nokkurn hag af kaupunum. Þess vegna höfum við komið með brtt. á þgskj. 504. Hefði jeg að sönnu heldur kosið, að hálfur hagnaðurinn lenti hjá landssjóði, en til samkomulags var sett á till. 71 hluti. Mun það líklegra til þess að ganga fram. Annars gerum við flutningsmenn brtt. þessa ekki að verulegu kappsmáli.