15.07.1918
Efri deild: 66. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (872)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Eggert Pálsson:

Jeg hygg, að fleirum en mjer hafi komið að óvörum yfirlýsing sú, er hæstv. atvinnumálaráðherra gaf, um að ekki sje komin enn formleg samþykt frá Svíum um síldarkaup þeirra. Jeg hygg, að allir, nema ef vera kynni bjargráðanefnd, hafi talið, að alt viðvíkjandi þessari síldarsölu væri klappað og klárt, en af yfirlýsingu hæstv. atvinnumálaráðherra er það sýnt, að svo er ekki, og áhættan er því meiri en ráð hefir verið gert fyrir. Það er því meiri ástæða nú en var þegar brtt. var samin, til þess að samþykkja hana, því að þá getur landssjóður fengið ofboð lítið meira fyrir áhættu sína.

Mjer skilst einnig, að samþykt á brtt. leiði til þess, að frv. verði ekki flaustrað eins af, og má ske ekki samþykt fyr en full vissa er komin um söluna. Munurinn, sem hjer er um að ræða, er svo lítill, að það er engin ástæða til þess að álíta, að háttv. Nd. fari að gera hann að ágreiningi, því að eftir brtt. eiga útgerðarmenn að fá 3/4 af ágóðanum, en eftir till. háttv. Nd. 4/5; munurinn er ekki nema 1/20. Flutningsmenn frv. segja, að þetta muni litlu fyrir landssjóð. Satt er það, en eins og það munar litlu fyrir landssjóðinn, eins munar það litlu fyrir útgerðarmenn; það sjá allir, og í þessu sambandi verður að gæta þess, að með þessu er verið að afhenda fje til útgerðarmanna, sem flestir eru meira eða minna efnaðir; þótt nokkrir geti verið fátækir í þeim hóp, þá vitum við, að þar eru og þeir menn, sem eru sterkefnaðir og orð leikur á að sjeu orðnir miljónamæringar. Það hefir ekki heldur verið gengið hart eftir framlögum til hins opinbera af þeim, sem grætt hafa síðustu árin, og minna á þá lagt en annarsstaðar, t. d. munu Danir leggja á þá um 50%. Er það allólíkt, þar sem við látum þá sigla sinn sjó í næði, tökum á okkur áhættuna fyrir þá, en látum þá hirða gróðann.

Jeg sje því ekki ástæðu til annars en að brtt. verði samþykt, enda er hún í fullu samræmi við fyrstu till. háttv. flm. hjer í háttv. deild.