11.07.1918
Efri deild: 62. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg hefi í síðustu ræðu minni, um breyting á launum lækna, vikið nokkuð að þessu frv„ sem eðlilegt er, því að það er svo náið samband á milli þeirra, eins og jeg hefi þegar. tekið fram.

Jeg vænti, að háttv. þm. sjái, er þeir athuga málið, að nefndin hefir viljað finna varanlegan grundvöll fyrir þetta mál.

Nefndin litur svo á, að ef verið er að smábæta launin hjá einum flokki í þetta sinn og öðrum næst, þá verði það alt af meira eða minna kák og ósamræmi. Af því leiðir líka, að alt af yrði að vera að fjalla um launabætur á hverju einasta þingi, er saman kæmi, svo að segja í það óendanlega.

Ef teknir væru einstakir embættismenn og bætt launakjör þeirra, eins og háttv. Nd. gerir, þá yrði strax eða á næstunni, að bæta við launin hjá fleirum. Þetta yrði því aldrei annað en kákið einbert. Ef bæta á til fullnustu og ákveða launakjör embættismanna til langframa, þá verður að taka alt launamálið fyrir, en það væri mjög óheppilegt, að svo væri gert á þessum tímum, eins og það er sjálfsagt, að svo verði gert, þegar viðskiftalífið kemst í rjettar skorður aftur.

Eins og málið horfir nú við, er því ekki um annan grundvöll en núverandi laun að ræða. Það verður að lita svo á, sem þau sjeu rjett og eðlileg hlutföll milli þeirra. Af þessum launum verður að veita skynsamlega uppbót, einkum þeim er lægri launin hafa, því að þeir verða þó að geta lifað, en jafnframt þó þeim líka eitthvað frekari, er hærri launin hafa, þar eð störf þeirra verða að teljast vandasamari og þýðingarmeiri, og til þeirra þarf oftast meiri undirbúning. Og þessu hefir nefndin talið að hún næði best með þeirri procentuuppbót af launum, er lagt er til í frv. þessu að greiða skuli.

Eins og menn sjá, þá hefir nefndin gengið fram hjá ýmsum smáatriðum, sem vorn í síðustu og núverandi dýrtíðarlögum. Hjer er t. d. slept ákvæðinu um afgjald af prestssetrum. Nefndin taldi enga þörf á að halda því ákvæði. Því að eftir grundvelli frv. getur það aldrei munað miklu, hvort það stendur eða ekki, en hins vegar eru lögin handhægri á allan hátt með því að fella það niður, kosta minni skriftir og fyrirhöfn.

Annað atriði, sem nefndin gekk fram hjá, er ákvæðið um einhleypinga, sem ekki hafa dúk og disk. Nefndin lítur svo á, að landssjóður geti ekki tekið til greina ástæður verkamanna sinna, hvort þeir sjeu ríkir eða fátækir, giftir eða ógiftir. Kaup þeirra á að miðast við verk þeirra, og við vitum, að þeirri reglu fylgja allir atvinnuveitendur landsins. Hvaða útgerðarmaður t. d. spyr háseta, sem hann ræður til sín, hvort hann sje giftur eða ógiftur, með tilliti til kaupgjaldsins? Það gerir vitanlega enginn. Og hví skyldi þá landssjóður frekar gera það? Auk þess ber að líta á það, að ýmsir einhleypir menn eru ekkert betur staddir í fjárhagslegum efnum en þeir, sem giftir eru. Það kemur oft fyrir, að bæði hjónin vinna sjer beinlínis inn fje. Hugsanlegt er t. d. að maðurinn sje í þjónustu landsins en konan aftur á móti í vinnu hjá öðrum, þar sem hún hefir eins mikil laun eða meiri en maðurinn. Þegar svo er ástatt, ætlast gildandi dýrtíðárlög til þess að maðurinn fái uppbót. Og er þó sýnilegt, að hann hefir hennar ekki frekari þörf, heldur jafnvel miklu síður en hinn ógifti.

Það er því bert, að það er ekkert rjettlæti í því, að gera þennan mismun og yfirhöfuð rangt að hafa þann hugsunarhátt, að konan sje ómagi mannsins. Þeim hugsunarhætti á að útrýma, en ekki ala.

Það liggur í augum uppi, og er tekið fram í greinargerðinni, að frv. eykur útgjöld landssjóðs að nokkru, Útgjöld landssjóðs munu vaxa kringum 50.000 kr. frá frv. háttv. Nd., en þar við er það að athuga, að þessi upphæð fer aðallega til þess að bæta kjör þeirra, sem minst hafa launin, og er það óneitanlega rjett.

Vitanlega græða prestar landsins talsvert á þessari breytingu, og jeg gæti hugsað, að margir líti svo á, sem það væri einn af aðalkostunum á frv. í mínum augum. Kost tel jeg þetta að vísu, skoða það með öllu óforsvaranlegt, að fara með þá stjett eins og frv. háttv. Nd. gerir ráð fyrir. Jeg álít, að fyrst þjóðin vill hafa þessa stjett, þá sje líka sjálfsagt að launa þeim, er hana skipa sæmilega og sanngjarnlega, en hitt sje með öllu ósamboðið sóma þings og þjóðar, að láta þá sitja við sveltilaun þau, er þeir eiga nú að búa við. Persónulega er mjer sama um frv. þetta, þar eð jeg er á því þurra, að því er launin snertir. Jeg er sem sje einn af þeim fáu hepnismönnum meðal prestastjettarinnar, að vera undir gömlu launalögunum, svo að uppbót þessi nær að litlu leyti til mín. Hvort jeg fæ 60% eða 40% uppbót á þær 600 kr., sem mjer ber úr prestslaunasjóði sem nefskattur, get jeg látið mjer algerlega á sama standa. Það hygg jeg að allir sjái.

Hitt játa jeg, að mjer sje skylt, og jeg álít, að öllum þingmönnum sje skylt, að hlynna það mikið að prestum, að þeir sjeu ekki sveltir, eins og segja má að nú sje.

Jeg get nefnt dæmi, til þess að sýna, hve hörmuleg laun þessarar stjettar eru Nýr prestur tekur við brauði. Laun hans, eins og annara nýrra presta, eru 1.300 kr. Nú þarf þessi prestur að fá sjer vinnumann og getur alls ekki fengið hann fyrir minna en 500—600 kr. á ári og alt frítt, með öðrum orðum, hann verður að greiða vinnumanninum meiri laun en þessar 1.300 kr., sem landið fær honum til þess að lifa af. Og þegar þess er gætt, að lausamenn, sem eru vel vinnandi, hafa fast að 2.000 kr. um árið, þá get jeg ekki skilið, að nokkrum manni vaxi í augum þessi hækkun, sem hjer er farið fram á, á launum prestanna.

Þessi hækkun mundi nema alls um 20—30 þús. kr. Barnakennararnir koma næst með um 16 þús. kr. alls. Þriðji liðurinn er uppgjafafólk. Hækkunin hjá því mundi nema um 10 þús. kr. Af öllu þessu er bert, að hækkunin kemur helst niður á þeim, sem hafa mesta þörfina fyrir hana, og skil jeg ekki annað en allir rjettsýnir menn telji að vel fari á því. Þá eru næst sýslumennirnir með um 9 þús. kr. hækkun alla. Að vísu er vert að geta þess, að ekki hafði verið farið fram á að hækka laun þeirra í frv. Nd., en hins vegar mun hafa verið gert ráð fyrir því, að sú hækkun hefði komist inn í frv. hjer í deildinni. Og þótt hún hefði ekki verið gerð í þetta sinn, þá mundi næsta þing hafa hækkað laun þeirra. Yfir höfuð mundi næsta þing ekki geta látið staðar numið við þær umbætur, sem háttv. Nd. hefir lagt til að gerðar væru í þessum efnum, og jafn vel ekki þótt þessi deild hefði bætt einhverjum fleiri nú inn á listann, sem við búið er að hún hefði gert.

Við nefndarmenn könnumst fullkomlega við, að þetta starf vort sje erfitt, að því fylgi meiri vandi en vegsemd, en við teljum oss hafa reynt að leggja sem rjettlátastan grundvöll í þessu máli og unnið að því með fullri samviskusemi.

Jeg þykist svo hafa skýrt aðaldrættina í frv. og vona að háttv. deild sjái hvað fyrir okkur nefndarmönnum hefir vakað og að háttv. deildarmenn sýni með atkv. sínum, að samviskusamlega og sannsýnilega hafi verið að verki gengið, af okkar hálfu, að því er þetta vandamál snertir.