12.07.1918
Efri deild: 64. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Kristinn Daníelsson:

Jeg vil þakka háttv. frsm. (E. P.) fyrir svarið, því að svar var það, þótt það væri ófullnægjandi. Frsm. (E. P.) sagði, að tíminn væri orðinn svo stuttur, að ómögulegt hefði verið fyrir nefndina að grafast fyrir um, hvaða byr málið mundi fá í Nd., en einmitt vegna þess, hve tíminn var stuttur, var þörf á slíkum upplýsingum, um leið og ráðist var í að koma með nýtt frv., því að málinu tel jeg ekki rjett að stofna í hættu, þótt með þörfum brtt. væri. Frsm. (E. P.) gat þess og, að það dygði ekki að spyrja eingöngu um álit hinnar deildarinnar. Það er að vísu satt í sjálfu sjer, en oft þarf þó að taka nokkurt tillit til þess líka, einkum þegar svona er liðið á þingið og komið í eindaga. Þingmenn þurfa oft að slá af till. sínum til að koma þeim fram, og er það rjett farið að, því að betri er hálfur skaði en allur. Annars vil jeg minna á, að þótt Nd. felli þetta frv., sem komið hefir fram hjer í deildinni, þá er til annað frv. um sama mál, er liggur fyrir þessari deild, og má þá taka það upp og afgreiða.