14.06.1918
Efri deild: 44. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Frsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Bjargráðanefndin hefir athugað brtt., sem fram hafa komið, og hefir orðið sammála um að mæla með brtt. á þgskj. 347, en um brtt. á þgskj. 355 er það að segja, að þær koma í bága við skoðun nefndarinnar á málinu.

Nefndin hefir litið svo á, að frv. veiti vel stæðum sveitarfjelögum of auðveldan aðgang að hjálp úr landssjóði, og brtt. á þgskj. 355 ganga einmitt í þá átt, að styrkur til slíkra sveitarfjelaga verði hækkaður.

Annars eru atkvæði nefndarmanna óbundin um brtt. þessar, og munu sumir ef til vill greiða atkv. með einhverjum þeirra, en þó er það nokkuð komið undir því, hvernig brtt. á þgskj. 347 reiðir af.

En við nefndarmenn lítum svo sumir á, að ef frv. verður samþykt óbreytt, þá sje í því sú gloppa, sem ekki megi við una, þar sem það bendir ekki á neina leið til nægrar dýrtíðarhjálpar handa þeim, sem bágast eiga.

En það getum við ekki sætt okkur við.