15.07.1918
Neðri deild: 71. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Pjetur Jónsson:

Það virðist svo, sem þetta frv. eigi fáa formælendur hjer í deildinni, því að ekki lítur út fyrir, að neinn ætli að taka til máls um það. Þessu máli var vísað til fjárveitinganefndar, og hún hefir nú í skýrslu á þgskj. 509 gefið í skyn, hvernig fór um meðferð málsins þar í nefndinni. Hún samdi ekkert nefndarálit um það, og enginn framsögumaður var kosinn til að mæla fyrir því hjer í deildinni. Jeg vil því leyfa mjer að skýra lítið eitt frá. því, hvernig málið var statt í nefndinni. Nefndin skiftist aðallega í tvo hluta, en þó voru skoðanir manna eiginlega miklu margbreyttari. Og það var síst nokkur meiri hluti með því, að nokkuð væri fyrir málið unnið. Eiginlega voru það ekki nema 2 menn í nefndinni, sem álitu rjettast að stúta ekki frv. nú þegar, heldur vildu reyna að koma á einhverju samkomulagi milli deildanna í þessu máli. En nefndarmenn voru allir einhuga um það, að það væri illa farið, ef hvorugt frv. næði fram að ganga, hvorki þetta nje frv. frv. um launauppbót embættismanna, sem þessi háttv. deild hefir afgreitt til háttv. Ed. Með öðrum orðum, að þær vonir, sem menn hafa haft undanfarið um það, að þingið ætlaði nú að verða við sanngjörnum kröfum embættismanna, yrðu að engu, fyrir innbyrðis sundurlyndi í þinginu. Það væri lítt sæmandi, ef svo færi, og það kæmi hart niður á mörgum manninum, sem vinnur í þjónustu landsins og dýrtíðin sverfur nú að. Þótt ekki hafi verið farið fram á mikla bót á launakjörum embættismanna, þá hefir það munað nokkru hjá allflestum. í þessu frv. er farið fram á þá hækkun á dýrtíðarupp bótinni, að telja mætti nokkura úrbót, þótt hún komi ekki alveg eins niður og þessi háttv. deild ætlaðist til, með því frv., sem hún afgreiddi.

Það þýðir ekkert að deila um þá aðferð, sem háttv. Ed. hefir tekið upp í þessu máli, að sinna ekki því frv., sem kom hjeðan og hafði hjer mikið atkvæðamagn að baki sjer, en taka nú upp nýja leið í málinu, sem okkur er ókunn. Menn hafa ekki haft nægilegan tíma til að íhuga þá leið. Og ef þessi dýrtíðaruppbótarlög yrðu að deiluatriði milli deildanna, þá þarf einhvern tíma til að jafna þá deilu.

Jeg sje, að hjer eru komnar fram brtt., sem sýna það, að ef fara ætti að breyta til, og haga frv. svo, að samræmi fengist í skoðanir manna, þá þyrfti til þess alllangan tíma, og líklega lengri tíma en þingið á völ á að þessu sinni. En nú var það, að fjárveitinganefnd Nd. fór fram á það við efri deildar nefndina, að hún tæki að minsta kosti frv. það, er samþykt var í þessari hv. deild til athugunar, meðan þetta mál væri hjer á döflnni og gerði á því breytingar, sem líklegt væri, að háttv. Ed. gæti sætt sig við, ef svo kynni að fara, sem ekki er ólíklegt, að þetta frv. yrði ekki samþykt hjer í deildinni. En jeg hefi ekki fengið nein ákveðin loforð um þetta frá háttv. fjárveitinganefnd Ed., svo að jeg get ekki spáð neinu góðu um, ef þetta frv. fellur, að hitt frv. sjái dagsins ljós heldur.

Jeg segi þetta að eins til þess, að menn geti betur áttað sig á málinu. Jeg vil ekki, að bæði frv. falli. Jeg vil heldur að þetta frv. haldi lífi, en hvorugt nái fram að ganga, að minsta kosti um sinn, til þess að menn geti reynt að koma sjer saman um málið.