15.07.1918
Neðri deild: 71. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Björn K. Stefánsson:

Jeg tel skylt, að láta nokkur orð fylgja brtt. mínum. Jeg býst við því, að hv. þgdm. líti á þær misjöfnum augum, og verð jeg því að gera grein fyrir, af hverjum toga þær eru spunnar.

Frv. því, sem nú liggur í háttv. Ed., greiddi jeg atkv. út úr deildinni. Ekki af því, að jeg gæti fallist á aðferðina í heild sinni, heldur af því, að jeg hafði nokkurn veginn vissu fyrir, að háttv. Ed. mundi taka upp þá leið, sem farin er í þessu frv. Þá aðferð felli jeg mig best við. Hina tel jeg varhugaverða. Hún er lítið ódýrari, en talsvert ranglátari. Þar eru tíndir úr einstaka menn, en aðrir skildir eftir, er eiga jafnrjettmætar kröfur til hærri launa. Og jeg þóttist þess fullvís, að þeir, sem nú eru settir hjá, mundu bætast smámsaman við, sumpart á þessu þingi og sumpart á næsta þingi. Og enn ein ástæða fyrir því að fara fremur þessa leið en hina, er sú, sem bent var á af formælanda þessarar stefnu, að það er öldungis víst, að þeir, sem settir eru hjá, mundu bera fram kröfur sínar á næsta þingi, en með þessu er von um, að málið fái að liggja kyrt á næsta þingi. Tel jeg það mikinn kost.

Jeg hefi frá upphafi, síðan þessi stefna kom fram, reynt að kynna mjer hugarfar manna til hennar. Jeg hefi komist að þeirri niðurstöðu, að þeir munu ekki margir, er geta felt sig við frv., eins og það kom frá háttv. Ed. Brtt. minar eru því komnar fram í þeim tilgangi, að reyna að gera frv. aðgengilegra fyrir þessa háttv. deild. Sumar brtt. legg jeg talsvert kapp á, að verði samþyktar, en aðrar minna. Ef þær verða allar feldar, veit jeg ekki, hvernig jeg muni snúast við málinu.

Jeg skal þá fyrst minnast á brtt. á þgskj. 506 1. liður er brtt. við 1. gr. 6. lið. Mörgum þykir, ef til vill, smávægilegt að leggja sig niður við að breyta þessu, enda er mjer það ekkert kappsmál. En jeg vil beina athygli háttv. deildar að því, hvort ekki muni gengið fullnálægt þingsköpunum með því að láta þessa málsgrein standa, þar sem feld hefir verið þingsályktunartillaga um sama efni. Mjer mun ef til vill svarað, að í þingsköpunum standi, að sje frv. felt, megi ekki taka það fyrir aftur, fyr en á næsta þingi, en hjer sje ekki um frv. að ræða, heldur þingsályktunartillögu. Má vel vera, að þannig sje hægt að snúast í kringum orð eða bein fyrirmæli þingskapanna, en allnærri anda þeirra og fyrirætlun er gengið með því, en þetta er ekki eina dæmi þess, að svo sje gert á þessu þingi.

Þá er 2 brtt., er fer fram á að bæta aftan við 1. gr.brtt. er tekin orðrjett úr gildandi lögum, að undantekinni upphæðinni, sem í henni er breytt, frá því, sem nú er. Jeg verð að halda því fram, að full ástæða sje til þess að gera upp á milli fjölskyldumanna og einhleypra. Jeg veit, að margar ástæður muni færðar á móti þessari brtt. og að þetta ákvæði muni geta komið hart niður, en jeg mun ekki fara frekar út það atriði, nema mjer verði gefið tilefni til þess síðar.

Þá kem jeg að 3. brtt., við 2. gr. Þar er breytt aðferðinni, sem dýrtíðaruppbótin er reiknuð eftir. Jeg álít, að þessar brtt. sje sanngjörn og hygg jeg að hún geti orðið til þess að sætta hv. deild við frv. Jeg vona því, að henni verði vel tekið af öðrum en þeim, er ekki vilja annað en drepa frv., og vilja ekki vinna að því, að færa það í viðunandi horf. Jeg hefi ekki haft tök á því að reikna út, hve miklum sparnaði þessi breyting muni valda, þar sem tíminn hefir verið svo naumur. En brtt. er í þeim anda, sem viðurkendur hefir verið á þessu þingi og á síðastliðnu þingi, sem sje, að dýrtíðaruppbótin eigi aðallega að stefna þangað, sem þörfin er mest. Ef brtt. er borin saman við frv. það, er samþykt var hjer í háttv. deild, er ekki heldur hallað rjetti þeirra, sem hafa hæst laun. Þeir, sem hafa 4.800 kr. í laun, fá nú 600 kr. uppbót, en eftir hinu frv. áttu þeir að fá 500 kr. hækkun. Það er því ekki hallað á þá, nema yfirdómarana og sjerstaklega dómstjóra. Eftir minni brtt. tapar hann 600 kr., í samanburði við hitt frv., en það hefi jeg reynt að jafna með sjerstakri brtt. á þgskj. 507, 2., svo að ekki muni meira en 100 kr. Þá brtt. flyt jeg í þeirri von, að hæstv. stjórn geti fremur felt sig við frv. Mjer hefir virst stjórninni einna annast um þenna lið úr því frv., er hún flutti upphaflega.

Á öðrum yfirdómurum munar svo litlu, að mjer þótti ekki taka því að bera fram sjerstaka brtt. um að hækka laun þeirra. Eftir frv., er hjer var samþykt, áttu þeir að fá 1.000 kr. launaviðbót, en eftir brtt. minni 900 kr., svo að ekki munar meira en 100 kr. En auk þess hefðu þeir fengið dýrtíðaruppbót, 1½% af 4.500 kr., sem eru tæpar 70 kr. Þeir tapa því alls nálega 170 kr., þegar þetta er borið saman við frv., er hjer var samþykt. — Jeg flyt því brtt. á þgskj. 507, 2., í þeirri von, að hæstv.. stjórn geti sætt sig við brtt. á þgskj. 506, 3.

Fjórða brtt., á þgskj. 506, þarf ekki mikillar skýringar. Í henni felst ekki annað en það, að þeir fá ekki styrk til framfæringa, er hafa hærri laun en 3.000 kr. Það er nákvæmlega sama sem að greininni væri breytt á þann veg, að settar væru 3.000 kr. í stað 4.000 kr., þar sem ákveðið er, hve há laun þeir megi hafa, er styrk geta fengið með framfæringum sínum.

Þá er loks að minnast á fyrri lið brtt. á þgskj. 507. Þegar jeg átti tal við ýmsa háttv. þingdm. um þetta frv., var því slegið fram, að óþarft væri að hækka dýrtíðaruppbót barnakennara, þar sem þeir hefðu fengið sjerstaka launaviðbót með öðrum lögum frá þessu þingi.

En brtt. í samræmi við það ákvæði, að starfsmenn landssímans skuli ekki fá uppbót af launaviðbót þeirri, er samþykt var að veita þeim með þingsályktunartillögu, sem annaðhvort er afgreidd frá þinginu, eða verður bráðlega afgreidd.

Jeg skal svo ekki tefja frekar fyrir hv. deild, nema mjer sje gefin ástæða til þess.