15.07.1918
Neðri deild: 71. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Sigurður Stefánsson:

Að eins örfá orð. Því var slegið fram, að þessi hækkun stafaði aðallega af því, að prestarnir hefðu verið teknir inn í frv. En jeg vil segja, að fjárveitingarnefnd er það kunnugt, að jeg barðist þar ekkert fyrir prestana, og fór ekki fram á neina uppbót fyrir þá. En ef fella á frv. fyrir þetta, þá er betra að strika prestana út, og skal jeg benda á, að það má gera við 3. umr. Það hafa ekki nema fáir prestar sent beiðnir til þingsins um bætur á kjörum sínum, og það þeir einir, sem orðið hafa fyrir sjerstöku ranglæti.

En hitt sný jeg ekki aftur með, að þessi aðferð háttv. Ed. er miklu aðgengilegri. Hjer er þó sú „Metode i Galskaben“, sem vantaði í frv. Nd. Og það er víst, sem jeg tók fram í umr. um það mál hjer í deildinni, að vjer fáum sömu söguna á næsta þingi, ef handahófsaðferð er fylgt. En ef þingið tekur upp þá aðferð að endurskoða dýrtíðarlögin, þá verður þó frekar eitthvert hlje á þessum leik, sem vel má heita hörmulegur skrípaleikur.

Jeg tek þetta einkum fram vegna prestastjettarinnar, því að jeg vil ekki að henni sje borin á brýn nein launagræðgi eða launauppbótargræðgi. Ekki svo að skilja, að jeg sje að tala um græðgi hjá hinum, sem fóru fram á launabætur. Þeir eiga heimting á því, því að það sæmir ekki, að verkamenn landssjóðsins sjeu verst launaðir allra verkamanna landsins.