15.07.1918
Neðri deild: 71. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Sveinn Ólafsson:

Háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir tekið nokkuð af því, sem jeg vildi sagt hafa, og svarað sumu af því, sem mjer þótti athugavert. Allir, sem talað hafa, að tveimur undanteknum, hafa felt sig við þessa aðferð í launamálinu, að breyta dýrtíðaruppbót og hækka, en láta föstu launin óbreytt. Engum ætti heldur að blandast hugur um, að stefnan er rjett, því að þetta nær þó til allra opinberra starfsmanna, en frv. fjárveitinganefndar, sem marðist hjer gegnum deildina á dögunum, náði að eins til sumra, og hlaut því að eins að vera byrjun áframhaldandi viðleitni til þess að laga það, er aflaga fer. Mjer þótti það eitt að ræðu háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að mjer fanst í orðum hans liggja hrakspá um það, að mál þetta mundi fara í mola í höndum þingsins. Mjer finst þó, sem sá viðbúnaður, sem hefir verið hafður um málið hjer í þinginu, sjerstaklega þó í háttv. Ed., sje svo hyggilegur, að það ætti að geta tekist að ráða skaplega fram úr því, sjerstaklega ef samkomulag fæst um brtt. þær, sem fram hafa komið. Hann (S. St.) tók það fram, að í öðrum eins flýti og hjer yrði að viðhafa, væri ekki hægt að átta sig á, hvort brtt. fjellu inn í frv. En jeg held þó, að það megi vel takast. Fljótt á litið sjer maður, að brtt. færa niður dýrtíðaruppbótina hjá nokkrum mönnum, sem vel eru launaðir, en snerta ekki við hinum, sem lægri laun hafa og þörfina meiri. Þær miða þess vegna í þá átt, að gera dýrtíðaruppbótina sanngjarnlegri, en haga henni ekki eftir tign og metorðum manna.

En þá kem jeg að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.). Hann fann það að frv., að ekki væri hægt að segja fyrir, hve miklu þessi dýrtíðaruppbót mundi nema, og að þessi uppbót mundi geta orðið svo mikil, að ekki tæki tölum. En það er sameiginlegur galli á báðum frv., launabótafrv. háttv. fjárveitinganefndar og þessu, að upphæðin verður eigi sjeð í svip. Fyrra frv. náði að eins til sumra, og engum var fært að sjá, hvar lykta mundi með þá, sem slept var.

Ádeila háttv. þm. (M. Ó.) til háttv. Ed. má gjarna fara sína leið fyrir mjer, en jeg held þó ekki, að alveg eins mikil ástæða sje til hennar, og hann gaf í skyn. Það er kunnugt, að þegar fyrra frv. fór hjeðan, var því mótmælt af 8 mönnum, og þar fyrir utan voru nokkrir þm. sáróánægðir með það. En samvinna mun hafa tekist með þeim og háttv. Ed. um að koma fram breytingu dýrtíðarlaganna.

Svo vil jeg minnast stuttlega á ræðu háttv. 1. þm. N.-M. (J. J.). Hann tvítók það, að ekkert gagn væri að þessari uppbót. Jeg skil ekki, hvernig hann getur fullyrt slíkt. Uppbótin kemur þá aldrei við hjá þeim, sem hún er ætluð. Mjer þykir undarlegt, er svo mikið fje er lagt fram, sem hjer um ræðir, ef það getur eigi að liði orðið, ef 60% uppbót á fyrsta þúsundið, getur nú ekki að gagni orðið þeim, sem áður fengu 40%. Það nær ekki nokkurri átt, að menn með 1.300 kr. launum muni ekki um uppbótina. Þeir fengu eftir eldri lögunum 520 kr. uppbót, en ættu nú að fá 690 kr. Hjer er nú stefnt að því, að draga úr uppbótinni þegar launin hækka, eins og eðlilegt er, en þó nokkur viðurkenning sýnd þeim, sem æðri stöður hafa í þjóðfjelaginu, með því að láta uppbót haldast upp að 6.000 kr. Annars var þessi breyting eðlilega gerð þeirra vegna, sem annars hefðu farið á mis við alla uppbót, ef handahófsfrv. fjárlaganefndar hefði verið samþykt, og því hefðu hlotið að heimta uppbót síðar.

Þess vegna vona jeg, að brtt. á þgekj. 506 og 507 fái byr í deildinni, og með því vona jeg, að þinginu takist að þvo hendur sínar og afgreiða þetta vandræðamál með skaplegum hætti.