16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi leyft mjer, með hjálp tveggja háttv. þingmanna, að senda í prentsmiðjuna brtt. við brtt. á þgskj. 506, og enn fremur brtt. við frv. sjálft, sem hjer liggur fyrir. Jeg vona, að þessar brtt. komi þegar, því að jeg álít að það sje best, úr því, sem komið er, að samþykkja frv. í aðalatriðum, eins og það kom frá háttv. Ed., og vera ekki að stríða við þetta mál, þó að jeg verði að játa það, að frv. sje langt frá því að vera gallalaust, eins og líka er eðlilegt, er tími háttv. deildar var svo takmarkaður.

Jeg skal þá ekki fara frekar út í þessar brtt., en að eins geta þess, í hverju þær eru fólgnar. Það er þá fyrst við 3. liðinn, að það sje ekki brtt. við alla greinina; heldur við fyrri málsgr., eins og jeg líka hefi heyrt að hafi verið meiningin, því að ef brtt. 3. á þgskj. 506 verður samþykt, þá fellur í burtu sama málsgr. og þar með uppbót af aukatekjum lækna og daglegri þóknun þm., en mjer er sagt, að það hafi ekki verið tilgangurinn. Þess vegna er brtt. mín á þá leið, að fyrri málsgr. orðist svo, og þá leyfi jeg mjer að bera fram þá brtt., að uppbót á aukatekjum lækna hækki upp í 60%, vegna þess, að felt var frv. um sjerstaka launaviðbót til lækna hjer í deildinni í fyrradag. Önnur brtt. er sú, að launamarkið í c-lið 3. brtt. á þgskj. 506 sje fært upp í 3.500 kr. úr 3.000 krónum. Mjer finst, að það sje ekki rjett að fara skemra en þetta nje heldur lengra frá frv., sem fyrir liggur, en svo.

Jeg skal þá ekki að svo stöddu fara frekari orðum um málið; að eins vil jeg geta þess, að þessi brtt. mín, um að fara úr 3.000 krónum upp í 3.500, bakar landssjóði ekki ýkjamikil útgjöld. Jeg get ekki sagt fyrir víst hve mikið það muni vera, en það eru að eins 100 kr. á ári til hvers embættismanns, sem svo er ástatt um, og það getur aldrei orðið mikil upphæð.

Jeg leyfi mjer að vænta þess, að atkvgr. um málið fari ekki fram fyr en brtt. þessum hefir verið útbýtt, og jeg vona, að háttv. deild muni samþykkja þær, og jeg hefi fyrir satt, að háttv. fim. brtt. á þgskj. 506 muni ekki setja sig mjög mikið á móti þeim. Komi það fram, að einhverjir embættismenn sjeu settir ranglega hjá með þessu frv., má á næsta aðalþingi athuga það og leiðrjetta. Jeg held, að sá einasti embættismaður, sem verður út undan við þetta, sje biskupinn. Jeg veit ekki, hvort 2. brtt. á þgskj. 506 kemur niður á nokkrum embættismanni nema skógræktarstjóranum; en sem sagt, þó að þetta sje nú svo, þá megum við ekki stofna öllu málinu í voða fyrir það; það má altaf taka málið til athugunar aftur.

Jeg vona, að háttv. flutnm. leggi ekki mikla áherslu á 1. brtt. við 6. tölulið, enda virðist mjer það líka svo smávægilegt; þar á móti býst jeg við, að þeir leggi allmikla áherslu á 2. brtt., og þess vegna vil jeg ekki skifta mjer mjög mikið af því.

Þá er 4. brtt. Mjer finst hún líka nokkuð smávægileg, en með því að hún skiftir varla svo miklu máli, sje jeg ekki ástæðu til þess að ræða hana sjerstaklega.

Þá er ein brtt. frá háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.), um laun háyfirdómarans. Jeg hefi vitanlega ekkert á móti henni, jafnvel þakklátur fyrir, að hún er fram komin. Jeg vona, að brtt. háttv. 1. þm. Árn. (S. 8.) nái ekki samþykki þessarar háttv. deildar, því að það yrði til þess eins, að hindra framgang málsins.

Að svo stöddu skal jeg þá ekki ræða frekar um málið.