16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Magnús Guðmundsson:

Jeg ætla að eins að lýsa yfir því, að jeg get ekki greitt þessu frv. atkvæði mitt, og það er af því, að mjer sýnist það einmitt auka ranglætið, en ekki bæta úr því; jeg skal t. d. benda á það, að samkvæmt þessu frv. fá menn, sem hafa 3.000 og 5.000 króna laun, alveg jafnháa dýrtíðaruppbót, nefnilega 1.000 kr., og jeg get ekki sjeð hvaða sanngirni er í því, auk þess sem það fer alveg í bága við þá reglu, sem hingað til hefir verið fylgt, að láta uppbótarprósentuna lækka eftir því sem launin hækka. Jeg skal líka benda á, að eftir gildandi lögum fær sá maður, sem hefir 2.000 kr. undir 700 kr. í dýríðaruppbót, en eftir frv. fengi hann 900 kr. Eigi hann nú 5 börn fær hann rúmlega 100 kr. meiri dýrtíðaruppbót eftir frv. en núgildandi lögum, vegna lækkunar á styrk til uppeldis barna. Maður með 5.000 kr. launum fær eftir núgildandi lögum enga dýrtíðaruppbót, en eftir þessu frv. fær hann 1.000 kr. uppbót. Eigi hann nú 5 börn, eins og 2.000 kr. maðurinn, fær hann eftir frv. 250 kr. fyrir þau. Með öðrum orðum, sá maður, sem hefir 2.000 kr. í laun og 5 börn, fær með þessu frv. rúmlega 100 kr. viðbót, en maður með 5.000 kr. laun og 5 börn fær 1.250 kr. viðbót. Svona lagaðri sanngirni ljæ jeg ekki atkvæði mitt. Frv. er vanhugsað og á að falla hjer í þessari hv. deild.

Brtt. þær, sem komnar eru fram við frv., eru ef til vill til einhverra bóta, en alls eigi svo að nægi, enda enginn tími til að athuga þær. Mun jeg greiða sumum þeirra atkvæði mitt en sumum ekki, en undir öllum kringumstæðum greiði jeg atkvæði á móti frv. því að það er óhæft og leiðir til hins mesta misrjettar, auk þess sem það eykur landssjóði stórum útgjöld.