16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (912)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Gísli Sveinsson:

Jeg skal ekki tala langt um þetta; jeg ætla að eins að segja fáein orð út af ræðu háttv. 1. þm. Skagf. (M. G).

Háttv. þm. (M. G.) gerði grein fyrir atkvæði sínu nokkuð ljóslega, á þann veg, að hann gæti ekki greitt atkvæði með þessu frv. og ekki heldur með þeim brtt., sem fram eru komnar. Þetta er skírt og skorinort og er auðvitað komið til af því, að háttv. þm. (M. G.) er mótfallinn öllum launabótum, fram yfir það sem verið hefir, því að annars væri ástæðulaust að vera að lýsa yfir því, að maður ætli að vera á móti öllum launabótatillögum, hvernig svo sem þær væru. Það er nú vitanlegt, að þetta frv., sem frá háttv. Ed. kemur, hefir sína galla, en þó er það miklu rjettari leið heldur en þær kákbreytingar, sem þessi hv. deild ljet sjer sæma að senda frá sjer fyrir skemstu. Jeg hygg, að ef fjárveitinganefnd þessarar deildar hefði tekið sjer það fyrir hendur í öndverðu, er hún fjekk launamálin til meðferðar, að endurbæta dýrtíðarlögin, samkvæmt þeirri stefnu, sem fram hefir komið áður hjer í þingi, þá væri málið áreiðanlega komið í betra horf en nú er. En fyrir þetta, að fjárveitinganefnd kom fram með þessar kákbreytingar á föstum launum, í trássi við vilja svo að segja allra eða flestra, þá er nú svo komið, að jafnvel þeir, sem þó vilja veita einhverja uppbót, sjá sjer ekki fært að vera með því, og svo er það líka ofureðlilegt, að þeir, sem engar breytingar vilja, verði líka á móti því. En hjer voru þeir menn í meiri hluta, sem alls ekki vildu fara þessa leið, heldur dýrtíðaruppbótarleiðina. Þess vegna er nú komið algert rugl á. Og það versta er, að þetta rugl stafar bæði frá þeim, sem vilja bæta, og hinum, sem eru mótfallnir uppbótum. Nú er síðasti dagur þingsins eða svo og málið komið í öngþveiti, og ekki hægt að finna neina leið út úr því, nema menn geti komið sjer saman um einhvern tilbærilegan grundvöll. Þegar verið er að tala um að gera einhverjar umbætur á þessu frv., tel jeg rjett að miða við það ástand sem er, en ekki við eitthvað, sem hefði verið samþykt, ef öðruvísi hefði atvikast, eða átt að samþykkja, eða verður, ef til vill, samþykt á næsta þingi eða hver veit hve nær.