16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (913)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Einar Jónsson:

Mjer virðist vera búið að ræða svo mikið um þessi frv., sem fram hafa komið í launamálinu á þessu þingi, að vanþörf sje á að lengja þær ræður frekar. Þó að nú sje kominn bunki af brtt, þá sýnist mjer, að þær sjeu svo greinilega orðaðar, að óþarft sje að deila um þær frekar. Jeg ætlaði að fara fram á það við forseta, að fundi yrði frestað, ef brtt. yrðu ekki komnar í tæka tíð. En þær eru nú allar komnar.

Það hefir verið svo mikið rætt um þetta mál, hver þm. haldið 10—20 ræður, að jeg hefi ekkert um það að segja, nema jeg endurtaki það, sem þegar hefir sagt verið. Jeg æski þess vegna atkvgr. sem fyrst, um leið og jeg lýsi yfir því, að jeg tel þinginu ekki sæma að hafna þessu frv. Munurinn er fólginn í því, hvort þessi stefna Ed. sje rjett, eða stefna sú, sem Nd. hafði valið. Um þetta hafa háttv. þm. hlotið að mynda sjer skoðanir. Þó að jeg geti ekki verið samþ. ýmsu í frv., álít jeg ekki rjett að hafna því, úr því sem komið er.