16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg skal ekki verða langorður um þetta mál, því að þessar umr. eru lítilsverðar. Jeg vil að eins geta þess, að jeg lít svipað á þetta mál og háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Jeg er nærri sannfærður um, að fáir njóta góðs af þessari uppbót. Landssjóður geldur meira fje, en sú fjárhæð, sem fellur hverjum einstökum í skaut, er svo lág, að hann munar nálega ekkert um hana. En málið er hins vegar komið í óvænt efni og ekki að vita, hvernig Ed. snýst við, ef frv. yrði felt hjer.

Jeg hafði hugsað mjer að bera fram till., sem færi í þá átt, að halda málinu í sama horfi og síðasta þing kom því í. í fyrra samþ. þessi deild að hafa hliðsjón af heimilisástæðum manna. Hún samþ., að þeir, er hefðu einhverja fram að færa, skyldu fá 50 kr með hverjum, en Ed. færði þessa fjárhæð upp í 70 kr. En nú bregður svo kynlega við, að háttv. Ed. lækkar þessa uppbót niður í 50 kr., og telur óheppilegt, að fje í þessu skyni skuli nokkurn tíma hafa verið veitt. Ed. hefir þess vegna skift um skoðun á þessu máli síðan í fyrra. Hún hækkar nokkuð uppbótarprósentuna, en jeg er viss um, að þeir, sem þyngstum heimilum eiga fyrir að sjá, njóta ekki neins góðs af þessari breytingu. Þeir, sem vilja bæta lágt launuðum starfsmönnum hins opinbera, hljóta þess vegna að greiða minni till. atkv. sitt. En það tel jeg að bíta höfuðið af skömminni, ef till. verður feld, því að þá eru það að eins látalæti, að þykjast vilja bæta kjör hinna lægst launuðu starfsmanna, en ekki tilætlunin í raun og veru.

Atkv. mitt um þetta frv. fer eftir því, hvernig með þessa till. fer.