16.07.1918
Neðri deild: 72. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

118. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi að eins gera örstutta athugasemd.

Ýmsir hafa tekið það rjettilega fram, að kosturinn á þessu frv. Ed. væri sá, að enginn munur væri gerður á starfsmönnum hins opinbera, heldur væri hverjum bætt upp ákveðin hlutatala af launum hans, hvort sem þau væru há eða lág. Þetta er tilraun til að færa uppbótina frá fátækrastyrkinum og láta hana vera uppbót á fallinn gjaldeyri.

Þetta tel jeg sæmilegan grundvöll og bestu till., sem fram hefir komið í málinu, að undanskilinni till., sem borin var fram á þingi 1916, er hafði þann sama ágalla og till. Ed., að undanskilja hæst launuðu embættismennina, með þeirri reikningslegu rökfærslu, að móðir vor ættjörð segði við einstaka menn: Þig hjelt jeg svo vel í fyrra lífi, að jeg bæti þjer nú ekki upp, en við hina: Þú áttir svo ilt, að þjer vil jeg bæta. En í gildandi lög voru settar barnsfúlgur og undanskildir sumir starfsmenn landsins, ef þeir voru ógiftir og ómagalausir. Þó að vinna þessara manna sje engu minni en hinna, þá verðskulda þeir ekki sömu uppbót, ef þeir eru svo hepnir eða óhepnir, að eiga konu og börn.

Jeg sje, að nú er fram komin till. frá tveimur þm. af Austurlandi, sem fer í þá átt, að einhleypingarnir fái enga dýrtíðaruppbót. Ef þessi till. yrði samþ., væri það að hverfa frá skynsamlegri stefnu málsins yfir í handahófsuppbótina og þá tegund göfuglyndis, sem ríkti á síðasta þingi. En þegar svo væri komið, væri í engu um bætt frá því, sem áður var, því að með þessu háttalagi yrði töluvert stór hópur manna út undan.

Jeg sje líka á till. þessari kynlegan hlut; en hann er sá, að allir stundakennarar eru undanskildir uppbótinni. Það er einkennilegt höfðinglyndi að undanskilja þessa menn uppbót fyrir það, að þeir hafa orðið að starfa sem stundakennarar, vegna þess að menn hafa ekki tímt að gera kenslu þeirra að föstu embætti. Pálmi Pálsson var t. d. 10 ár stundakennari við Mentaskólann og fjekk þá loks embætti. Jeg var þar stundakennari í 10 ár, en fjekk spark í stað embættis. Og Jón Ófeigsson hefir verið stundakennari í 10 ár. Sumir stundakennarar hafa ekki annað starf á hendi en þessa stundakenslu, og þó á að undanskilja þá. Hagur landssjóðs er líklega svo erfiður. Þessir sparnaðarpostular ættu að festa upp auglýsingar á erlendum kauphöllum, þar sem þeir fengju lán, og lýstu yfir því, að Ísland gæti ekki greitt stundakennurum dýrtíðaruppbót, því að hagur þess væri svo erfiður. Þetta mundi verða ágætt meðal fyrir sparnaðarmennina til þess að gagnast landi sínu og þjóð. Það er öllum ljóst, að tiltrúin er ekki lítils virði, og menn mundu trúa því, að sú þjóð, sem auglýsti þetta, mundi ekki draga menn, á tálar. Þeir mundu segja: „Miklir dæmalausir sæmdarmenn eru þetta, að segja okkur þetta svona hreinskilnislega. Ekki eru þeir að fara í kringum okkur. Við hefðum annars ef til vill glæpst á að lána þeim um 100 kr. virði, en nú vitum við, að það er ekki óhætt“. Nóg af þessu tægi ætti að koma fram í lögum og helst í erlendum blöðum og auglýsa það sem oftast, þar sem erlendir peningamenn og Íslendingar þyrftu að hafa viðskifti. Þá hefðu þessir fjármálaspekingar náð tilgangi sínum.

Jeg skal ekki skifta mjer af, hverskonar blanda verður úr þessu, úr því að hjer eru engar hreinar línur, engin hrein hugsun og ekkert rjettlæti. Mjer er því sama, hver grauturinn gengur fram.