26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 935 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Frsm. (Sigurður Sigurðsson):

Það er rjett álitið hjá háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), að margt er líkt um þessar till., og má því gera ráð fyrir, að niðurstaðan, sem háttv. deild kemst að um þær, verði hin sama, sem sje sú, að hvoruga jörðina beri að selja. En aftur á móti get jeg ekki verið honum sammála um það, að nú sje rjettast að fresta þessu máli, þar til nefndin hafí látið uppi álit sitt um Gaulverjabæjarmálið.

Það má sem sje geta þess, að um þá till., sem nú liggur fyrir, stendur nefndin óskift og einhuga, en án þess að jeg ætli að fara að bera sögur út af nefndarfundum, þá býst jeg ekki við, að því verði að heilsa um till. viðvíkjandi Gaulverjabæ. Jeg geri líka ráð fyrir, að um þá till. geti af einhverjum misskilningi orðið frekari umræður, og er því að mínum dómi betra að útkljá þetta mál nú þegar og ræða svo hitt málið á sínum tíma.

Jeg ætla því ekki nú að svara ræðu háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) um Gaulverjabæ, heldur geyma það þangað til málið verður tekið fyrir hjer í deildinni.