26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal ekki neita því, að jeg er sömu skoðunar og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) um það, að þar eð um er að ræða tvær till., sem báðar eiga við samstætt efni, þá hefði verið viðkunnanlegra, að þær hefðu báðar fylgst að hjer í deildinni, og mjer finst það óskiljanlegt, að nefndin skyldi ekki láta uppi álit sitt um báðar jarðirnar í senn.

Jeg skal ekki fara út í það að svo komnu máli, hvort hindra beri sölu jarðanna, en það er ekki fjarri sanni, að jeg mundi verða feginn, ef nægilegar ástæður fengjust fyrir því að neita sölunni. Jeg er sem sje fremur mótfallinn sölu þjóðjarða og kirkjujarða, og vil, ef unt er, ekki láta selja eina einustu, en þó síst af öllu slíkar jarðir sem þessar.

Af þessu verður sjeð, að ekki hefði þurft mikið til þess að fá mig til að neita sölu þessara jarða, ef það er á annað borð hægt vegna anda laganna.

Leiðin, sem farin hefir verið í þessu máli, er nokkuð vafasöm. Þegar sem sje stjórninni er heimilað með lögum að selja allar þjóð- og kirkjujarðir, þá er það allóheppilegt að taka eina jörðina út úr og reyna að hefta sölu hennar með því að fá háttv. deild til þess að samþykkja þingsályktunartill í þá átt. Bending til stjórnar, sem lítur eins á málið og sú stjórn, sem nú situr að völdum, hefði átt að veranægileg, þótt ekki væri í slíku formi sem hjer.

Þar að auki hefði jeg búist við því, að háttv. flm. (S. S.) hefði spurt stjórnina, hvort henni fyndist ástæða til þess að taka þessa þingsályktunartill. til greina, því að þótt hún verði nú samþykt, þá gefur það að skilja, að með því er ekki hægt að neyða stjórnina til þess að breyta á móti lögunum.

Jeg álít því, að best sje að láta bæði málin fylgjast að, og að taka eina jörð út úr tel jeg viðurhlutavert.