26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 940 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Bjarni Jónsson:

Háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) talaði um, að hann væri hlyntur sölu þjóðjarða, og skil jeg því vel afstöðu hans. En eins og mönnum er ef til vill kunnugt, þá er jeg á gagnstæðri skoðun. Jeg álít, að landið eigi ekki að selja jarðir sínar, og þó að jeg hafi stundum verið með því að selja þjóðjarðir, þá er það ekki af öðru en því, að jeg hefi ekki viljað gera einum hærra undir höfði en öðrum af þeim, sem kaupa hafa æskt. Í þessu sambandi get jeg ekki leitt hjá mjer eina athugasemd. Það hefir verið færð sem ástæða móti sölunni, að einstakur maður vilji kaupa jörðina, en ekki fleiri menn eða fjelag. Slík ástæða er ljettvæg, því að mjer finst sama, hvort einn maður eða þúsund koma fram með málaleitun; sje málaleitunin rjettmæt, á hún að ganga fram, sje hún órjettmæt, á hún ekki að ganga fram. Sú málaleitun, sem hjer er farið fram á, er órjettmæt, af því að jörðin, sem hjer er um að ræða, er einhver mesta kostajörð, sem landið á, og hefir mörg skilyrði til þess að verða margfalt arðbærri eign í framtíðinni en hún er nú. Þess vegna á hún að verða áfram landsins eign. Það var ekki alls kostar rjett, sem sagt var hjer í deildinni, að vantaði skýrslu um framtíðarhag jarðarinnar. Eins og mönnum er kunnugt, hefir Alþingi veitt fje til áveitu úr Þjórsá yfir Skeiðin, einmitt mest um það svæði, sem heyrir undir þessa jörð; og má Alþingi hafa vitað, er það veitti slíkt fje, að framkvæmdirnar mundu leiða til stórmikilla bóta á jörðinni. Þingið hefði aldrei farið að veita fje þarna, hefði það ekki fyrirfram vitað, að það fje mundi margfaldlega ávaxtast, og það eitt ætti að vera nægileg ástæða til þess, að landið seldi aldrei jörðina. Jeg álít því engar skýrslur vanta hjer.

Jeg get ekki sjeð, að rjettara hefði verið að koma fram með frv. í þessu máli en þingsályktunartill., því að stjórnin hefir fult vald til að neita sölunni, þó að þingið ekki vilji; henni má því vera sama, í hvaða formi þingviljinn kemur fram. Hæstv. forsætisráðherra tók heldur í þann strenginn, að þingið hefði átt að gefa út lög um söluna, en jeg veit, að honum muni verða alveg nægilegt að fá þingviljann í þingsályktunartill.formi.