26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Einar Jónsson:

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J) skaut því fram, að það ætti alls ekki við, að nokkur þm. gæti verið með því að selja jörð, sem landssjóður hefði sjerstaklega lagt fram fje til þess að gera endurbætur á. En slíkt finst mjer engin ástæða. Ef þingið eða landsstjórnin sjer ástæðu til þess að styrkja eitthvert landssvæði, þá gerir hún það án þess að hafa það fyrir augum að taka sjerstök rjettindi einstakra manna í staðinn. Fjeð, sem fram er lagt, á að koma landsmönnum til góða, en ekki landssjóðnum, á annan hátt en þann, að tekjur hans aukast við aukin gæði lands.