26.04.1918
Neðri deild: 10. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (947)

10. mál, sala Ólafsvallatorfunnar

Þórarinn Jónsson:

Háttv. frsm. (S. S.) gat þess, að það væri ekki rjett, sem jeg tók fram, að hjer myndi eitthvað persónulegt liggja á bak við. Hann ljet þess getið, að frá sinni hlið væri það ekki, og það getur líka verið rjett. En það horfir undarlega við, þegar maður sendir þingmönnum brjef og segir þar svo eða svo frá, en svo kemur annar maður og segir, að brjefritarinn vilji fá jörðina handa syni sínum o. s. frv. Hjer er eitthvað persónulegt, og býst jeg við, að það vaki fyrir fleirum en mjer. En það má vel segja, og er líklega skoðun háttv. frsm. (S. S.), að ekki sje mikið að marka álit sýslunefndar. En af því, að sýslunefnd hefir verið og er að lögum mikill aðili í málinu, get jeg ekki gengið fram hjá áliti hennar, er jeg legg það móti áliti eins manns. Og þótt hún sje nú komin á aðra skoðun en hún hafði áður, þá getur vel verið og er líklegast, að síðasta skoðun hennar sje hin rjetta, og bygð á því, að nú hafi hún fengið hinar bestu upplýsingar. Jeg held því, að ummæli mín um persónulegt atriði í málinu sjeu ekki ofmælt.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) kvað á sama standa, hvort bygt væri á áliti eins eða fleiri, t. d. 100 manna, að eins að málsatriði væru rjett. Getur vel verið nokkuð í því, en þó getur ekki verið sama, hvort ræða er um álit eins eða hundrað manna, því að eftir því, sem fleiri menn sanna eitt atriði, verður að telja það ábyggilegra, og hvort málsatriðið er hjer rjett getur hann ekkert sagt um fremur en jeg. Taldi jeg því rjett að leita frekari upplýsinga og fresta sölunni. Og jörðin verður ekki heldur metin rjett fyr en sjeð verður, hve miklum umbótum hún getur tekið.

Jeg hefi nú heyrt, að sumir hv. þm, t. d. háttv. þm. S -Þ. (P. J.), vilja gera sig ánægða með yfirlýsingu frá hæstv. forsætisráðherra. Þeir treysta þá stjórninni til að fara rjetta leið í málinu.

Geta þeir þá vel verið með dagskrártill. minni, og vona jeg því, að hún verði samþykt.