24.04.1918
Neðri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

17. mál, útibú á Siglufirði

Flm. (Stefán Stefánsson):

Jeg get verið þakklátur hæstv. atvinnumálaráðherra fyrir undirtektir hans í þessu máli, og engu síður háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), sem kannaðist þegar við, að þörfin fyrir útibú á Siglufirði mundi vera svo mikil, að jafnvel eitt útibú mundi ekki fullnægja þörfinni. Það er því síst að ófyrirsynju, að Siglufjörður fer af stað og biður um útibú. Þörfin og kvörtunin fara hjer saman, og má nú öllum vera það ljóst, hversu eðlilegt það er, að Siglufjörður þurfi að hafa bæði þetta og fleira út af fyrir sig.

Í greinargerð þeirri með frv., sem jeg drap á í fyrri ræðu minni, er áætlað, að útfluttar og innfluttar vörur frá og til Siglufjarðar muni að heimsstyrjöldinni lokinni nema ca. 9 miljónum króna á ári. Þetta mun engan veginn of í lagt, og geta háttv. þm. sjálfir sannfært sig um, að þeir póstar í áætluninni, sem mestu varða, sjeu mjög sennilega áætlaðir. En sá staður, sem hefir viðskiftaveltu, verslun og útveg upp á nær 9 miljónir króna, þarf auðsjáanlega að hafa peningastofnun, eins og jeg hefi margtekið fram, og slíkt má ekki dragast. Jeg þekki ekki, hversu brýn þörf bankaútibús er í Vestmannaeyjum, en þó er mjer næst að halda, að þörfin sje þar engu meiri en á Siglufirði.

Það gleður mig að heyra frá hæstv. stjórn, að bankastjórn Landsbankans sje fús til þess að setja á stofn útibú. Sje svo, þá er bankastjórninni að fara fram, því að ekki hefir hún verið fíkin í fjölgun útibúanna undanfarið. En þar sem þessi heppilega stefnubreyting bankastjórnarinnar hefir orðið, þá treysti jeg henni nú til þess að vera svo viðsýn, að sjá, að Siglufjörður á að vera næstur í röðinni með að fá útibú.

Á síðasta þingi var málum þeim, sem bankana snerti, vísað til allsherjarnefndar, og vil jeg, að sama sje nú, enda flestir þeir sömu í allsherjarnefnd og í fyrra. Held jeg því fast við fyrri till. mína, um að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.