18.05.1918
Efri deild: 22. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

17. mál, útibú á Siglufirði

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Um þetta mál er fátt að segja. Er það samskonar mál og verið hefir nýlega fyrir deildinni um útibú í Vestmannaeyjum. Nefndin, eða nokkur hluti hennar, er sömu skoðunar og áður, að vafasamt sje, hvort þingið eigi að vera að blanda sjer í þessi mál. En þar sem búið er að samþykkja fleiri till. um útibúastofnanir, leit nefndin svo á, að ef þessi till. væri feld, mundi Siglufjörður gjalda þess, að þingið vildi ekki gefa honum meðmæli sín. Þar sem því nefndin álítur, að bankaútibú sje nauðsynlegt á þessum stað, gerir hún það að till. sinni, að till. verði samþykt.

Eins vil jeg geta, þótt ekki sje víst um, að það verði tekið til greina. Nefndin leggur til, að till. verði samþ. eins og hún er, óbreytt, en þó er hún að einu leyti í ósamræmi við till., sem samþykt var um daginn, um útibú í Vestmannaeyjum, því að þar stóð „útbú“, en hjer stendur „útibú“. Vildi jeg helst óska þess, að þetta verði skoðað sem prentvilla í þessari till.