11.05.1918
Neðri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

40. mál, sauðfjárbaðlyf

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg álít ekki ófyrirsynju, að reynt sje að hefta vaxandi útbreiðslu fjárkláðans, sem, eins og háttv. tillögumaður (Þór. J.) hefir bent á, á sjer stað víða um bygðir þessa lands, án þess að rönd verði við reist. Stjórnin hefir lagt sig í framkróka um það, að baðlyf verði útveguð, ekki á þann hátt, að hún hafi sjálf gert kaup á þeim til innflutnings, heldur með því að útvega kaupmönnum útflutningsleyfi á þeim þaðan, sem þau eru helst að fá, en það er, eins og kunnugt er, í Bretlandi. Það hefir gengið mjög stirt að fá þetta útflutningsleyfi þar. Bretar hafa hreyft við skil yrðum, sem tæplega getur komið til mála að ganga að. En út í það mál ætla jeg ekki að fara að þessu sinni. Samt virðast líkur til, að hægt verði að útvega baðlyf á þessu ári, þó ekki svo mikil, að til útrýmingarböðunar verði hugsað. Til þess þarf tvær baðanir og því helmingi meira baðlyf. Stjórninni er ljúft að verða við áskorun till, og hún vill stuðla að því eftir megni, að þrifabaðanir geti farið fram, en hún getur ekki ábyrgst, að svo geti orðið, ef einhver ófyrirsjáanleg aðflutningsteppa yrði því til fyrirstöðu, að baðlyf kæmust til landsins í tæka tíð.

Að því er snertir 2. lið till., þá er stjórnin fús til að koma fram með þær áskoranir, sem þar ræðir um, sjerstaklega um það, að baðað sje samtímis á svæðum, sem saman liggja. Mjer er kunnugt um það, að um þetta atriði er víða lítið hirt. Af hálfu hreppsnefndanna er eftirlitið líka alt of lítið. Hver baðar þegar hentugleikar hans leyfa, og í sumum sveitum getur staðið á fjárböðunum vikum og enda mánuðum saman. Mín sannfæring er það — og sú sannfæring er bygð á reynslu — að halda megi fjárkláðanum í skefjum með vandlega framkvæmdum þrifaböðunum eftir föstum reglum. Lengra verður varla haldið í þessu efni í bráð, en ef þetta er gert og því gaumur gefinn, að sem best og reglulegast sje að verki verið, þá er það mikil bót frá því, sem nú hefir verið um hríð.