11.05.1918
Neðri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 963 í B-deild Alþingistíðinda. (974)

40. mál, sauðfjárbaðlyf

Sigurður Sigurðsson:

Það var nú ekki margt eða mikið, sem jeg vildi sagt hafa. Jeg vil eindregið samþ. þessa till á þgskj. 74, frá þeim háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.) og háttv. þm. Borgf. (P. Ó.), og tel jeg, að hún geti orðið að einhverju liði í þessu efni. Annars hefi jeg ekki trú á því, þótt horfið væri að því ráði að baða alt fje landsins til að útrýma fjárkláða, að það muni hepnast til fulls. En hins vegar lít jeg svo á, að með núgildandi löggjöf, bæði lögum um böðun sauðfjár og lögum nr. 40, 8. nóv. 1001, um fjárkláða og önnur næm fjárveikindi á Íslandi, megi takast að halda kláðanum í skefjum, svo að hann geti ekki gert tilfinnanlegt tjón. En gallinn er oft sá, að þar, sem kláða verður vart, er hann ekki ætíð tekinn nógu föstum tökum. Heimildum þeim, sem löggjöfin veitir, er ekki beitt, og því ekki gert nægilega mikið til að tryggja það, að fjeð sje baðað. Og það er ekki nóg að baða að eins á þeim bæ eða bæjum, er kláðans verður vart, heldur þarf þá einnig að baða fjeð í þeirri sveit eða sveitum, sem kláðinn hefir gert vart við sig í. Í stuttu máli, mjer finst sem þarna hafi stjórnarvöldin, æðri sem lægri, ekki beitt sjer nógu vel til að hefta útbreiðslu veikinnar, þar sem hennar hefir orðið vart. Jeg er sannfærður um, að ef menn framfylgja vel núgildandi kláðalöggjöf, þá þarf í engu að óttast, að kláðinn geri verulegt tjón. En henni verður ekki framfylgt nema þeir, sem settir eru til eftirlits með framkvæmdum laganna, geri skyldu sína. Vona jeg, að till. þessi stuðli að því, og mun því greiða henni atkv.