11.05.1918
Neðri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (975)

40. mál, sauðfjárbaðlyf

Einar Jónsson:

Jeg skal fyrst taka það fram, að fyrri lið þessarar till. er jeg með öllu samþ. Hjer er að ræða um eitt af því, sem landsstjórnin á að sjá fyrir, og er ekki nema rjett að herða á henni með hyggilegar framkvæmdir á sem flestum sviðum.

En við 2. lið hefi jeg dálítið að athuga. Hjer er tekið svo til orða, að „tryggilegt eftirlit skuli haft með böðunum á sauðfje, og að þær fari, eftir því sem kostur er á, samtímis fram á þeim svæðum, þar sem samgöngur eru tíðar“. Nú eru til lög um sauðfjárbaðanir, og veit jeg eigi annað en að þeim sje nokkurn veginn hlýtt; skoða því þennan lið till. óþarfan. En jeg óska upplýsinga um, hvort hjer eigi að setja upp sjerstakt stjórnarráð til umsjónar, og ef svo er, mun jeg vera á móti því. Heldur ekki er jeg því sammála, að þeim orðum verði stranglega framfylgt, að baða samtímis á þeim svæðum, sem hafa góðar samgöngur. Það yrði lítt framkvæmanlegt og óþægilegt fyrir bændur, því að oft mun standa svo á, að bónda sje ekki fært að gera það í dag, sem hann á hægt með að gera á morgun, og „omvendt“ Þess vegna tel jeg þetta ekki heppilega fyrirskipun. Vil jeg nú að eins biðja háttv. flm. (Þór. J.) að segja mjer, hvað þessi síðari liður á að þýða og hvernig skilja beri starf hinna nýju eftirlitsmanna.