11.05.1918
Neðri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 967 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

40. mál, sauðfjárbaðlyf

Hákon Kristófersson:

Jeg get fallist í öllum aðalatriðum á það, sem háttv. flutnm. till. (Þór. J.) hefir sagt. Till. fer í rjetta átt, og er því má ske hugsanlegt, að bót sje að því, að hún nái fram að ganga. En hins vegar fæ jeg ekki sjeð, að síðari liðurinn, þótt samþyktur verði, geri neitt tryggara. Skoðun mín er sú, að aðalástæðan fyrir því, hve illa þessum lögum er framfylgt, sje kæruleysi og ólöghlýðni þeirra, er eftirlitið eiga að hafa lögum samkvæmt. Vera má, að ýmsar orsakir mætti fleiri nefna, en eftir minni þekkingu og kunnugleika á þessu máli mun þetta vera aðalatriðið.

Tryggilegt verður eftirlitið ekki fyr en ákveðinn maður sjer um böðun á hverjum bæ, eins og átti sjer stað þegar hin almenna útrýmingarböðun fór fram. Þótt þetta sje í sjálfu sjer mikið nauðsynjamál, bæði fyrir einstaklingana og landið í heild sinni, þá líta menn svo sljólega á þessa löggjöf, að jafnvel heilar sveitir hafa skotið sjer undan að framfylgja henni. Vera má, að nokkru hafi valdið þar um, að baðlyf hafi ekki fengist, en líka mun hafa valdið nokkru sá trassaskapur, að menn hafi ekki útvegað sjer þau í tíma.

Þrátt fyrir það, þótt jeg búist við að samþykkja tillöguna, hefði jeg þó kosið, að betur hefði verið að orðið kveðið um þetta tryggilega eftirlit, svo að ekki yrði hjá því komist. Jeg hefi litið svo á, og lít svo á enn, og mun líta svo á, að hreppsnefndir einar hafi ekki skyldu til þess að hafa eftirlit með sauðfjárböðunum, heldur einnig hreppstjórarnir. En þar, sem hreppsnefnd og hreppstjóri vinna saman, býst jeg við, að lögunum verði betur fylgt En et báðir þessir aðiljar eru kærulausir um, að lögunum sje hlýtt, þá er ekki á góðu von.

Þetta er svo mikið nauðsynjamál, að þótt ekki væri um fjárkláða að tala, mundi þó borga sig að baða, því að fje verður bæði fóðurljettara og ullarmeira við það.

Það má vel segja, að það sje eðlilegt, að baðanir hafi ekki farið fram í vetur, sem afleiðing af illu tíðarfari, svo og vöntun á baðlyfi. Svo mun tiltekið í lögunum, að böðun skuli fara fram í janúarmánuði í seinasta lagi. En um það leyti í vetur mun það ekki hafa verið álitið hægt vegna kuldans, og þess vegna mun það hafa farist fyrir. En það er einnig kunnugt, að heilar sveitir hafa undanfarin ár lagst undir höfuð að hlýða lögunum. Var því ekki vanþörf á veigamikilli árjettingu frá þinginu.