11.05.1918
Neðri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 971 í B-deild Alþingistíðinda. (983)

44. mál, laun til Gísla Guðmundssonar

Bjarni Jónsson:

Mjer skilst, sem það hefði nú ekki verið úr vegi að fara eitthvað lengra en fjárveitinganefndin hefir viljað fara, þar sem ekki er um það að ræða, að maður þessi hafi það starf eitt, er forstöðumaður efnarannsóknarstofunnar hafði áður, og hann fær nú 300 kr. fyrir, heldur hefir hann og sitt eigið starf, illa launað. Hann hefir því á hendi tveggja manna starf og fær fyrir það 2.400 kr. Slíkt virðast heldur lítil laun.

Mjer finst ekki þurfa að taka það fram hjer í deildinni, að hjer sje ekki um nýja fjárveitingu að ræða, eins og það sje svo óttalegt. En hjer er á ferð eitt nýtt dæmi þess, að fátækir menn eru neyddir til þess að vinna í þágu hins opinbera fyrir sultarlaun. Það hefði verið rjett af nefndinni að veita manni þessum það, sem hann fór fram á.

Jeg ætla ekki að gera neinn ágreining við nefndina, sem jeg er sjálfur í, heldur vildi jeg láta þess getið, að þetta er rangt gert og illa, eins og fleira, sem hjer er gert, og langt frá því að vera sómasamlegt, ef menn skyldu þá fremur taka að hugsa á þá lund, hvað sæmilegt sje landssjóði sem vinnuveitanda að greiða vinnumönnum sínum. Jeg tel landið ekki svo fátækt, að þurfa að fara í vasa einstaklinganna, sem vinna fyrir það, og fjefletta þá.

Ef svo væri, þá ætti það heldur að biðja menn að gera landssjóði þann greiða, að vinna kauplaust fyrir það. Landið ætti þá t. d. að segja við þennan mann: Gerðu nú svo vel að bæta á þig þessu starfi fyrir ekkert, því að jeg get ekki greitt það, sem hingað til hefir verið greitt fyrir það. Og það er víst, að þessi maður mundi manna fyrstur hafa gert landi sínu þann greiða í bágindum þess.

Svo orðlengi jeg ekki meir, en get þess aftur, að jeg hefi ekki hugsað mjer að bera fram sjerstaka till., eða brtt. við þá, er háttv. meðnefndarmenn mínir bera fram, en þess hefi jeg viljað geta, að þetta er, svo sem jeg hefi talað, ekki nægilegt kaup fyrir vinnu mannsins.