02.09.1918
Neðri deild: 2. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Bjarni Jónsson:

1)

1) Upphaf þessarar ræðu hefir týnst af slysum áður en hún kæmi í hendur skrifstofunni. Eftir svo langan tíma man jeg eigi, hvað það var, og verður því vera eyða fyrir.

Bjarni Jónsson frá Vogi.

. . . Jeg skal geta þess, af því að jeg nefndi Franz von Liszt í dag, að skoðanir hana og röksemdaleiðslur eru nákvæmlega hinar sömu sem liggja til þess að skýra það, sem í frv. þessu felst, sem hreint konungasamband.

Er það nokkur hjálp, er íslenskir frelsisvinir koma með slíka skýringu málsins.

Annara þykir mjer fyrir um deilur þessar. Fyrst og fremst þykir mjer ilt að deila við gamlan samverkamann minn og samherja, því að mjer er óhætt að segja það, að á okkur hefir ýmislegt oltið, og að nokkru leyti er það okkur að þakka, hvert komið er framgangi málsins, að nú er það fengið, sem við höfum barist fyrir.

Draumsjónirnar eru að rætast, og nú gerist sá viðburður í sögu landsins 1. des. næstk., að meiri er sigurinn en jeg hafði nokkurn tíma gert mjer vonir um, á svo skömmum tíma.

Þykir mjer nú leitt, að háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) skuli ekki sjá þegar sigurinn er unninn, en gott þykir mjer hitt, að við höfum sigrað.

Og jeg vil endurtaka það, sem háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að það er hreinn misskilningur, að hjer sje nokkuð sameiginlegt, nema konungurinn einn, enda þótt vjer felum Dönum ýmislegt í umboði okkar. En umboð getur sá einn veitt, sem eigandi heitir.

Hið síðasta, sem háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) lagði til málanna, var það, að hann spurði mig, hvort þetta væri ekki Pyrrusarsigur. En því neita jeg. Þetta er enginn Pyrrusarsigur, en það hefði orðið, ef sá háttv. þm. (B. Sv.) hefði fengið sínu framgengt nú og Danir lent í ófriðnum og við verið teknir af ófriðarþjóð. Sá sigur hans hefði orðið Pyrrusarsigur.

Og jeg vil benda á það, að háttv. þm. (B. Sv.) var sammála 1908 um það, að Danir gætu ekki verndað okkur, ef til þyrfti að taka.

En þótt jeg hafi undirgengist ýmislegt í samningi þessum, sem mjer þótti óljúft þá er ekkert af því hættulegt, og jeg hræðist það ekki, þótt þjóðin hafi eitthvað að kljást við; henni er viðfangsefnið holt.

En það er mjer gleðiefni að sjá fram á góð málalok, áður en Danir eru komnir í stríðið.