09.09.1918
Neðri deild: 7. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

3. mál, sala á kjöti o. fl.

Forsætisráðherra (J. M.):

Það lætur að líkindum, að útflutningsnefnd og ráðuneytið muni gera alt, sem í þeirra valdi stendur, til að greiða fram úr því máli, sem hjer er rætt um, og að því leyti mætti segja, að þessarar till. gerist ekki þörf. Jeg skal geta þess, að það er ekki svo, sem háttv. flm. (P. O.) gat sjer til, að ekki hafi verið reynt að senda vörur til annara landa en Englands frá 1915. Það hefir verið reynt á allan hátt að senda vörur til Norðurlandanna allra og gert að því alt, sem mögulegt hefir verið, á hverju ári síðan 1915. Hefir það jafnan verið falið þeim, er sendir hafa verið hjeðan til samninga, og einnig þeim, er sendir voru síðast.

En enda þótt því ekki hafi verið þörf hvatningar í þessu efni, þá er ekki nema gott, að till. þessi er fram komin, og ekki nema rjett að samþykkja hana, því að þá má ætíð vitna til þess, að Alþingi hafi talið hjer vera sjerstaka þörf fyrir hendi.