09.09.1918
Sameinað þing: 4. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (141)

Þinglausnir

Á 4. fundi í sameinuðu þingi, þriðjudaginn 10. sept., kl. 1 miðdegis, þinglausnafundi, skýrði forseti í stuttu máli frá störfum þingsins og mælti síðan:

Þetta þing, hið stysta, sem haldið hefir verið — það hefir staðið í eina 9 daga — hefir ráðið til lykta fyrir sitt leyti hinu mikilvægasta máli, sem legið hefir fyrir Alþingi, sáttmálanum við sambandsríki vort, Danmörku, um það, að Ísland skuli vera viðurkent og auglýst frjálst og fullvalda ríki, ævarandi hlutlaust í ófriði og í konungsambandi einu við Danmörku.

Þessi sáttmáli hefir af vorri hálfu, Íslendinga, verið samþyktur af yfirgnæfandi meiri hluta Alþingis og verður nú bráðlega borinn undir alþingiskjósendur í landinu til samþyktar eða synjunar.

Það er ósk og von þessa meiri hluta þingsins, að þjóðin taki sáttmálanum ekki lakar en þingið og að einnig yfirgnæfandi meiri hluti hennar gjaldi jákvæði sitt við honum, að Ríkisþing Dana samþykki hann fyrir sitt leyti og að sameiginlegur konungur vor staðfesti hann.

Það er innileg ósk og von vor allra, að hin íslenska þjóð kunni með fullveldi sitt að fara og að gæta þess, og að það megi reynast henni í framtíðinni öflug lyftistöng til sannra framfara, bæði í andlegum og veraldlegum efnum.

Það gefi guð.