09.09.1918
Neðri deild: 7. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (154)

4. mál, greiðsla af kostnaði af flutningi innlendrar vöru

Matthías Ólafsson:

Jeg hefi komið með brtt. á þgskj. 10, til þess að sjávarafurðirnar verði ekki út undan, ef ljett skyldi verða undir með flutning á landbúnaðarafurðunum. Það gleður mig, að að hv. flm. aðaltill. (B. Sv.) hefir tekið vel þessari viðaukatillögu minni.

Jeg sje, að ýmsir örðugleikar geta orðið á því að ákveða fyrirfram, hvernig hinum mismunandi flutningskostnaði skuli niður jafnað; mun því rjettast að gefa stjórninni sem frjálsastar hendur, og má vel vera, að hún geti liðkað málið þannig, að eigi þurfi það að hafa í för með sjer mikinn kostnað fyrir landssjóð, og gæti því verið rjett að afgreiða það með rökstuddri dagskrá, er gengi í þá átt, sem umr. hafa fallið.