09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (165)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg held, að jeg hafi tekið rjett eftir, að síðasta orð hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hafi verið „dixi“ — „jeg hefi talað“. Mjer varð um leið litið til hv. þm. (S. St.), og jeg verð að játa, að það var svo langt frá því, að jeg fyndi til gremju eða beiskju út af ummælum hans, en annað flaug í hug minn, og það var hið fornkveðna, „að tvisvar verður gamall maður barn“.

Það er öllum ljóst, að þegar vantraustsyfirlýsing er borin fram af einum af þm. þjóðarinnar, þá verða sakarefnin að vera dregin upp með skýrum og glöggum dráttum. Á því á bæði þing og þjóð, og sömuleiðis þeir menn, sem fyrir sakarefnunum verða, heimtingu. En það verð jeg að játa, eftir að hafa hlýtt á hina stórorðu ræðu hv. fl. (S. St.), að hjer var óskiljanlegt, hverjar þær sakargiftir væru, sem rjettlættu vantraustsyfirlýsinguna.

Það hljóta allir að sjá, að á þessum örðugu tímum, þegar stjórnin oft þarf að ráðast upp á eindæmi í stórfyrirtæki, þá má ekki byggja vantraustyfirlýsingu á eintómun stóryrðum, dylgjum og einkisverðum hljómi. Hjer í þessum sal verður að heimta meira, ef virðingu þingsins á að vera borgið.

Engum detti í hug, að það fari skjálfti um mig, þó að þessi vantraustsyfirlýsing sje komin fram. Sannarlega gekk jeg eins rólegur að þessum þingfundi eins og hverjum öðrum, því eftir mínum skilningi hefi jeg ekkert að óttast. Jeg veit af engum sökum á mig og hefi jafnan gert það, sem jeg taldi rjettast.

Það er jafnvel langt frá því, að jeg mundi blikna eða blána, þó vantraustsyfirlýsingin yrði samþykt hjer í hv. deild. Jeg veit, að fyrir utan þetta þing er til annar æðri dómstóll — dómstóll þjóðarinnar — og undir þann dómstól þori jeg óhræddur að skjóta máli mínu. Jeg hefi líka áður sótt mál mín undir þann dómstól og borið sigur úr býtum. En þó að jeg ætti að skifta nú um stöðu, þá er langt frá, að jeg tæki mjer það nærri. Jeg hefi aldrei sett mjer það að marki að vera ráðherra, og það ætti enginn að gera; en hitt er annað, að jeg hefi haft trú á ýmsum málum, sem jeg hefi haldið, að jeg gæti ýtt undir í þessu embætti. En ráðherra getur ekki ýtt undir málin nema hann hafi fylgi að baki sjer, og þá er það sjálfsagt að leggja niður embætti, ef fylgið brestur.

Nú verð jeg að fylgja dálítið þeim þræði, sem hv. flm. (S. St.) hafði í ræðu sinni. Hann mintist á stjórnina 1916 og 1917, er hann með smekkvísi sinni kallaði þá þríhöfðuðu.

Það er öllum vitanlegt, sem fylgst hafa með í þingsögunni, að á þinginu 1916–'17 var nokkur deila um það, hverjir skyldu skipa stjórnina. Deilan stóð á milli míns flokks og Framsóknarflokksins annars vegar og Heimastjórnarflokksins hins vegar, og var um það, hver ætti að skipa forsætið. — Niðurstaðan á deilunni varð sú, að ráðuneyti Jóns Magnússonar var myndað. En samtímis komu allir flokkar, sem að stjórninni stóðu, sjer saman um eina og sömu stefnuskrána út á við, þá stefnuskrá, að ná yfirráðum yfir öllum málum þjóðarinnar.

Og það er mín skoðun — en ekki hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) — að þetta hafi verið eitthvert mesta giftusporið, sem Alþingi hefir stigið, því að það var orðið augljóst, að Danir mundu aldrei láta undan kröfum vorum á meðan vjer vorum sjálfir á ýmsum skoðunum um það, hverju skyldi halda fram, og háðum stríð innbyrðis út af þeim málum. Jeg held því, að samsteypuráðuneyti um sömu stefnuskrá út á við, hafi verið mjög heppilegt, og eftir þeirri niðurstöðu, sem nú er orðin, furðar mig á því, að út á það skuli vera sett.

En í raun og veru var aðalástæðan til þess, að þriggja manna stjórn var yfir höfuð sett svona fljótt á laggirnar, hin miklu vandræði, sem yfir vofðu af heimsstyrjöldinni, sem augljóst var að engri stjórn mundi verða kleift að ráða fram úr, nema hún hefði öflugan meiri hluta þingsins að baki sjer, og þær hinar illyrmislegu árásir, sem gerðar hafa verið oft á stjórnina, sýna, að þessa var þörf.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) fann stjórninni, sem mynduð var 1916–'17, það sjerstaklega til foráttu, að hún hefði ekki verið skipuð starfshæfum mönnum. Jeg skipaði ekki upphaflega neinn sess í stjórninni, heldur fór 1. þm. G.-K. (B. K.) með fjármálin, sem jeg er nú ráðherra yfir. Hann verður því að svara þessari aðdróttun fyrir sig, því það var fyrst seint á árinu 1917, að jeg tók við ráðherraembætti.

Þá hjelt hv. þm. (S. St.) því fram, að eiginlega hefði hinum ráðherrunum þegar í byrjun verið þrengt upp á forsætisráðherrann. Þessari sömu kenningu hefi jeg heyrt haldið fram í Lögrjettu. En þetta er bláber vitleysa, vegna þess að það liggur í hlutarins eðli, að enginn mun fást til þess að taka að sjer að mynda stjórn, nema með þeim mönnum, sem hann vill starfa með og treystir sjer að starfa með. Ef hann treystir ekki samverkamönnunum, þá tekur enginn með ábyrgðartilfinningu að sjer starfið.

Þá bar hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) stjórninni það á brýn, að hún væri sjálfri sjer sundurþykk, og nefndi hann bæði fossamálin og skólafrestunarmálið. Þegar jeg kom í stjórnina, voru umræður um fossamálið að mestu leyti um garð gengnar, en auk þess veit jeg ekki betur en að niðurstaðan í því máli hafi verið sú, að rannsaka málið sem best og vandlegast, en það var sú stefna, sem jeg og minn flokkur hjelt fram, en vorum hins vegar þegar ráðnir í því að hindra framgang frumvarps þess, sem borið var fram í háttv. efri deild og allir sjá nú, að ekki mátti fram ganga. Jeg skal játa, að í skólamálinu var jeg á annari skoðun heldur en meðstjórnendur mínir, því jeg vildi fresta skólahaldi. En það liggur í augum uppi, að í stjórn, sem skipuð er af flokkum, sem áður hafa borist á banaspjótum, mætti það heita mjög merkilegt, ef ráðherrarnir væru altaf á sama máli. Og þótt slíkt ósamþykki komi fram, eins og t. d. í skólamálinu, þá var það ekki nægilega stórt mál til að setja það á oddinn, eins og jeg þegar tók fram á þinginu. Mjer finst því ástæðurnar, sem hv. flm. (S. St.) færir fyrir sundurlyndi stjórnarinnar, vera mjög svo smáar og veigalitlar.

Þá mintist hv. þm. (S. St.) á Flóaáveitumálið. Jeg veit ekki til þess, að neinn ágreiningur hafi verið í stjórninni um það mál, því að jeg veit ekki annað en að samþykt hafi verið lög um hana, lög sem afgreidd hafa verið af þinginu.

Þá kom hann að launamálinu. Mjer er kunnugt, að sú skoðun hefir verið ríkjandi hjá mörgum, að ekki væri rjett að taka það mál fyrir og leiða það til lykta fyr en um hægðist og dýrtíðinni ljetti, þó að jeg hins vegar gangi þess ekki dulinn, að nauðsyn reki til að ráða fram úr þessum málum sem fyrst. En mjer er meira en lítil ráðgáta, hvernig sjerstaklega ætti að beina þessari sök að mjer.

Þá vítti hv. flm. (S. St.) það fastlega, að í blaði, er stæði nálægt fjármálaráðherra, væri gagnrýnd veitingin á lögreglustjóraembættinu í Reykjavík, og gaf í skyn, að jeg hefði viljað pota í embættið einum flokksbróður mínum.

En jeg býst við, að honum veitist allerfitt að færa nokkurt dæmi því til sönnunar, að jeg hafi misbrúkað vald mitt til þess að hlynna að flokksbræðrum mínum.

Þau fáu embætti, sem jeg hefi veitt, sýna það, að jeg hefi ekki seilst eftir flokksbræðrum mínum í þau.

En það skal jeg játa, að þetta embætti hefði jeg veitt hv. þm. Ísaf. (M. T.), og það með góðri samvisku, þar sem hann um lengri tíma hefir gegnt samskonar embætti með mestu röggsemi, en hinn umsækjandinn, er embættið fjekk, aldrei fyr fengist við lögreglustörf.

Mín skoðun um veitingu embættisins var því önnur en forsætiráðherrans, en erfitt mun að gera þann skoðanamun að efni í vantraustsyfirlýsingu.

Í sambandi við þetta vil jeg taka það fram, að jeg veit ekki betur en jeg og Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið saman við hina flokkana um öll mikilsverðari mál, og hv. þm. (S. St.) getur ekki fundið dæmi þess, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sýnt annað en vilja til þess að halda áfram samvinnunni, en gleyma deiluefnunum, sjerstaklega nú, er markið var sameiginlegt, það mark, sem nú er náð.

En það er eins og hv. flm. (S. St.) beri kala til allra flokka. Samvinnan hjá honum við aðra hefir víst verið nokkuð hvikul. Jeg veit ekki betur en hann hafi verið í valtýska flokknum hjer áður. Litlu síðar var hann orðinn eldrauður sjálfstæðismaður. Þá var hann í bræðingnum sæla. Síðan gerðist hann heimastjórnarmaður, og sýndu ræður hans á síðasta þingi flokkstrygð hans til hæstv. forsætisráðh.

Nú er hann með langsummönnum, en hvort hann á eftir að lenda í Framsóknarflokknum verður ekki um sagt.

En eins og þetta sýnir, þá hefir hann smogið gegnum alla flokka, og allir fengið nóg af guðsmanninum.

Þá sagði háttv. þm. (S. St.), og þá var mikið hlegið, að þingið væri stjórnlaust og stjórnin þinglaus.

Ef háttv. þingm. í stórmensku sinni líkir eftir Loðvík XIV. og segir um þingið líkt og hann sagði um ríkið: „þingið, það er jeg“, já, þá er stjórnin því betri þinglaus, en annars mun háttv. þingmaður komast að því áður en lýkur, hve miklu hann ræður hjer á Alþingi.

Þá kem jeg að aðalvantraustsatriðunum eða yfirskynsástæðunum.

Hv. þingm. (S. St.) virtist telja þar fremst í röð Tjörnesnámuna. En háttv. þm. (S. St.) veit, að jeg er alveg ókunnugur þessu máli, hefi engin afskifti af því haft. Að eins var mjer kunnugt, áður en jeg kom í stjórnina, að þingið lagði mikla áherslu á, að unnið væri sem mest að innlendum kolanámum, og vildi láta halda áfram með Tjörnesnámuna.

Þá er annað atriðið, vinna fyrir fátækt fólk í Öskjuhlíðinni síðastl. vetur. Í því máli kom nefndarálit á síðasta þingi, 100 daga þinginu, en svo seint, að ekki varð um það rætt, og mun það hafa verið gert vísvitandi. Er þar reynt að vekja óánægju út af vinnunni. Sýnir nefndarálitið, að tapið varð líkt og stjórnin í byrjun þingsins síðasta skýrði frá, ca. 40 þús. kr.

Vinna þessi var, eins og öllum er kunnugt, heimiluð í lögum, og allir máttu vita og bjuggust vitanlega við, að tap yrði á slíkri vinnu. En við það bættist, að óvenju kuldar gengu yfir land alt og gerðu vinnuna svo örðuga í alla staði, en að sama skapi óx þörfin fyrir vinnuna. Hallinn varð því ekki meiri en getið er um hjer að framan, en hins vegar mun öllum gætnari mönnum bera saman um, að vinnan átti drjúgan þátt í að bjarga bænum út úr örðugleikunum.

Og það er jeg sannfærður um, að ef ekki hefði verið unnið, þá hefði farið illa fyrir mörgum bæjarbúum.

Þá hefir það verið gagnrýnt, að sett var á fót skrifstofa, sem nauðsynleg var til að stýra verkinu. Hið sama var gert af bænum.

Þeir, sem þörfnuðust vinnunnar, voru svo margir, að vinsa varð úr þá, sem höfðu brýnustu þörfina, og svo var öðrum hjálpað til að komast í aðra vinnu. Það er því af ókunnugleika, að fundið er að þessu atriði.

Um samningavinnu gat ekki verið að ræða, því ef samningar hefðu verið boðnir út með verði því, sem verkfræðingurinn áætlaði, myndu menn hafa borið lítið úr býtum, og ekki getað lifað af vinnunni, en hún var veitt, ekki í því skyni að græða á henni, heldur beinlínis sem hjálp í neyð.

Þá var fundið að því, að kaupið hafi verið hækkað. En það er ekki rjett. Kaupið var hið sama og í hafnarvinnunni, eða hjá sumum flokkum í hafnarvinnunni, og sama kaup sem bærinn greiddi. Það er því heimska að kalla þetta hneyksli.

En hitt er jeg viss um, að þetta var gott verk og bænum til gagns, og veit jeg, að stjórninni muni veita ljett að taka þessa ábyrgð á sig; en eins og hv. þingmönnum er kunnugt, var dýrtíðarvinnan sameiginlegt stjórnarmál.

Þá var sykurhneykslið. Hv. flm. (S. St.) fór ekki mörgum orðum um það, en vísaði í fleiprið um, að hjer hefði verið gerð tilraun til að leggja stóran skatt á þjóðina.

Hv. þm. (S. St.) veit nú vel, af umræðum þeim, sem fram fóru um málið á síðasta þingi, að þetta er alt staðleysa, og að þjóðin varð hvorki ríkari eða fátækari af því máli.

Hann veit líka vel, þingm. (S. St.), að þetta er af öllum skoðað sem smámál, og broslegt er, að hann skuli færa mjer þetta til útgjalda, því engin sanngirni væri þó til þess, að fjármálráðh. ætti að reikna út sykurverð í landsversluninni. Nei, sykurstormurinn er hlægilegasti stormurinn, sem blásið hefur verið yfir landið, og um það veit jeg að þingmaðurinn er mjer sammála.

Þá sakaði hv. flm. (S. St.) fjármálastjórnina um, að hún hefði ekki haft nógu strangt eftirlit með ráðsmensku atvinnumálaráðherra í vegamálum, og að farið hefði verið fram úr áætlun með suma útgjaldaliði vegamálanna.

Jeg skal nú játa það, að jeg vissi ekki fyrirfram um það, hvað rætt yrði hjer um, og þar sem jeg hefi verið lengi fjarverandi, þá get jeg ekki gefið nákvæma skýrslu um þessi atriði, fyr en jeg athuga þau uppi í stjórnarráði, en jeg veit hins vegar, að atvinnumálaráðherrann, sem framkvæmdir hefir í þessum málum, muni svara hjer fyrir gerðir sínar. En annars mun háttv. þingm. ljóst, að hvað eftir annað hefir það komið fyrir, án þess að um hafi verið sakast, að meira hefir verið unnið annað árið, og farið yfir áætlanir, en minna á hinu, þegar sjerstakar ástæður hafi verið fyrir hendi. Og sá, sem framkvæmdina hefir, verður að dæma um, hvort ástæðurnar eru fyrir hendi eða eigi.

Þá talaði hv. þm. (S. St.) um, að traust mitt mundi hafa minkað í landinu. Jeg veit ekki, af hverju hann dregur þá ályktun. Ekki virtist mjer, satt að segja, votta fyrir því á fundi þeim, sem jeg var á á Akureyri, og hefir það þó ekki verið talinn bjartasti blettur stjórnarinnar, en þar var mjer tekið eins vel og jeg gat óskað mjer, og voru þó stórmál rædd þar í marga tíma.

Í sambandi við landsverslunina beindi hv. flm. (S. St.) sökum að mjer í sykurmálinu.

En hins ljet hann ógetið, að ný stjórn var sett fyrir verslunina, og þar átti jeg hlut að máli, eigi síður en hinir ráðherrarnir.

Það var að vísu eigi nema skylda mín, en á það mátti eins minnast, ef hirt hefði verið um að fylgja sannleikanum.

Á síðasta þingi var fjárhagsnefnd Alþingis falið að rannsaka allan fjárhag landsins.

En niðurstaðan varð í öllum aðalatriðunum hin sama og jeg lagði fyrir þingið þegar í byrjun, og man jeg þó, að hátt glumdi í háttv. þm. (S. St.) þá, er nefndin var sett, en mögur var niðurstaðan fyrir hann. Þá er um skattamálin það að segja, að stjórnin lagði fyrir síðasta þing þrjú skattafrv., og hv. flm. vantraustsyfirlýsingarinnar (S. St.) fylgdi þeim öllum og kom aldrei með svo mikið sem eina brtt. við þau.

Jeg man líka, að jeg sagði þá við hann, að jeg væri honum þakklátur fyrir það, hve vel hann styddi mig.

Það hlýtur að koma mönnum undarlega fyrir sjónir, að þessi hv. þm. (S. St.) skuli leyfa sjer að bera fram vantraustsyfirlýsingu á hendur mjer, þegar það svo kemur í ljós, að rökin eru engin, en þessi sami hv. þm. hefir stutt mig í þeim aðalmálum, sem heyrðu undir mig.

Eða hvað er það þá í mínum verkahring, sem sjerstaklega verðskuldar vantraus? Er það það eitt, að hæstv. atvinnumálaráðherra hefir látið vinna of mikið að vegabótum?

Jeg hefi þegar sýnt fram á, að Öskjuhlíðarvinnan var sjálfsögð, og auk þess bar öll stjórnin ábyrgð á henni.

Jeg verð því að skora á þm. (S. St.) að koma nú með skýr rök til að byggja vantraustsyfirlýsinguna á. Og því meiri ástæða er til þeirrar áskorunar minnar, þar sem það kunnugt, að stjórnin hefir komið sambandsmálinu í gegnum þingið.

Hv. flm. (S. St.) hlýtur að skilja það, að meira þarf en hljóminn einan til þess að fella þá stjórn, sem slíku máli hefir fram komið.

Það munu því verða fleiri en jeg, sem líta svo á, að háttv. flm. (S. St.) gangi í barndóm, ef hann flytur ekki fleiri og sterkari rök fyrir sínu máli.

Það er svo, held jeg, ekki fleira, sem jeg þarf að svara.

En öll framkoma hv. vantraustsflytjanda bendir á það, að hann sje að verða að pólitísku skari, sem aldrei muni bera birtu framar hjer í þingsölunum.