09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í C-deild Alþingistíðinda. (167)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Halldór Steinsson:

Af því að jeg er annar af flutningsmönnum að öðrum lið vantraustsyfirlýsingarinnar, þykir mjer hlýða að taka til máls, enda þótt jeg geti búist við, að sumt af því, sem jeg segi, verði endurtekning á því, sem hv. meðflm. minn (S.St.) sagði. Hann hefir fært svo góðar og glöggar ástæður fyrir till., að jeg býst ekki við að geta gert það betur. En aldrei er góð vísa of oft kveðin, og þótt syndir stjórnarinnar væru hafðar upp fyrir henni, ekki sjö sinnum, heldur sjötíu sinnum sjö sinnum, þá væri það ekki ofgert. Það mun nú engan furða á því, þótt jeg sje óánægður með þessa stjórn, eða rjettara sagt með nokkurn hluta hennar. Jeg þykist hafa sýnt það svo oft áður, bæði innan þings og utan.

Árið 1916, þegar ráðherrunum var fjölgað, stóð jeg næstum því einn uppi í þinginu til andmæla gegn þriggja manna stjórn. Þóttist þá færa góð og glögg rök fyrir því, að þriggja manna ráðuneyti mundi ekki gefast betur heldur en eins manns stjórn. Nú hefir þessi spá mín ræst, því sjaldan hefir stjórnarfarið í landinu verið verra en þessi tvö síðustu ár, sjaldan síðan ráðherra varð búsettur hjer á landi. Því var haldið fram af meðhaldsmönnum ráðherrafjölgunarinnar 1916, að til hennar lægju tvær aðalástæður, sem sje 1) að störf stjórnarinnar væru orðin svo umfangsmikil, að þau væru ofvaxin einum manni, og 2) að fjölgun ráðherra mundi auka og efla frið innan pólitísku flokkanna á þingi. Við þessa tveggja ára reynslu er það nú komið fram, að hvorug þessara ástæðna hefir haft við neitt að styðjast.

Eins og kunnugt er, hefir stjórnin á þessum árum tekið fjölda manna í sína þjónustu, ýmist í fastar nefndir eða einstaka menn til vissra starfa. Við þetta er í sjálfu sjer ekkert verulegt athugavert, þar sem þessir erfiðu tímar hafa að ýmsu leyti heimtað það, en hinu vil jeg halda fram, að það er mjög líklegt, ef ekki áreiðanlegt, að ekki hefði verið þörf á fleirum mönnum, þótt ráðherrann hefði að eins verið einn, í stað þriggja.

Þá skal jeg minnast á friðinn. Ef það er friður í þeim skilningi, að ýms afglöp stjórnarinnar hafa verið látin óátalin og afskiftalaus af einskærri vægð við stjórnina, ef það er friður að þegja yfir ráðlauslegum fjáraustri stjórnarinnar til ýmsra óvissra fyrirtækja, þegja yfir bersýnilega ranglátum embættaveitingum o. s. frv., ef það er friður, að flestir þm. eru sáróánægðir með stjórnina, án þess að láta óánægju sína öðruvísi í ljós en hver við annan innbyrðis eða í viðtali við menn út í frá — ef það er þessi friður, sem menn hafa búist við, þá játa jeg, að honum hefir verið náð. En jeg vil jafnframt taka það fram, að jeg fyrir mitt leyti kýs heldur heilbrigðan ófrið en slíkan frið, sem í sjálfu sjer er enginn friður, heldur nokkurskonar lognmollumók eða andvaraleysi, sem hverju þjóðþingi er hættulegt og ósamboðið.

Þingið 1916 drýgði þá höfuðsynd að mynda þessa samsteypustjórn, úr þremur gagnólíkum flokkum. Þá hefði verið ólíkt viturlegra og heppilegra að láta alla stjórnina standa og falla með þeim litla meiri hluta, sem þá var hægt að mynda í þinginu, heldur en að hún styddist við þrjú flokksbrot, sem í raun og veru eru hvorki nægileg til að styðja hana eða fella. Þess vegna er nú komið sem komið er, að allir ráðherrarnir eiga fleiri eða færri andstæðinga í öllum flokkum þingsins, auk allra flokksleysingjanna, sem hafa neyðst til að segja skilið við flokka sína, vegna hins óheilbrigða stjórnarfyrirkomulags.

Það er og eins nokkurskonar samábyrgð milli ráðherranna innbyrðis. Ef einn þeirra gerir sig sekan í einhverju vítaverðu atferli, telja hinir sjer skylt að verja hann og reyna að draga úr flokksmönnum sínum að afstýra því.

Slíkt ástand verður óþolandi til lengdar, enda gengu flestir þm. út frá því á þingi 1916, að þessi samsteypustjórn væri hreint og beint neyðarúrræði, sem ekki væri hugsanlegt að stæði nema til bráðabirgða. Nú er svo komið, sjerstaklega síðan heita má að sambandsmálið sje til lykta leitt, að það er eiginlega ekkert sjerstakt mál, sem getur skift flokkum á þinginu, og flokkaskiftingin hlýtur því fyrst um sinn að eins að snúast um menn, en ekki málefni.

Jeg vil nú strax taka það fram, að þótt jeg sje meðflm. að eins að öðrum lið vantraustsyfirlýsingarinnar, þá er svo langt frá því, að jeg sje ánægður með allar gerðir hæstv. forsætisráðh. og fjármálaráðh. Hitt er annað mál, að jeg tel þá ekki hafa brotið það af sjer, að gerlegt sje, eins og stendur, að koma fram með vantraustsyfirlýsingu gegn þeim.

Hæstv. atvinnumálaráðherra sagði í ræðu sinni, að honum þætti kynlegt, að hjer væri að eins ráðist á nokkurn hluta stjórnarinnar, að hjer væri verið að gera tilraun til að kippa einstöku stoð undan þessari veglegu stjórnarbyggingu. En jeg hygg, að jeg þurfi ekki að minna hann á það, að þegar byggingar eru rifnar, endurbættar og endurreistar, þá er venja að kippa fyrst burt fúnustu stoðunum, og svo er það hjer, svo að samræmi er í þessari vantraustsyfirlýsingu, þar sem fyrst og fremst er lögð áhersla á, að honum sje vikið úr stjórninni. Það kann einhverjum að virðast, að jeg ráðist hjer á garðinn þar sem hann sje lægstur, þar sem er að ræða um atvinnumálaráðherrann, mann, sem er kominn á fallanda fót, en auk þess er yngsti stjórnmálamaðurinn í stjórninni. Jeg skal játa, að jeg hefði helst kosið, að til þessara umræðna hefði ekki þurft að koma, að ráðherrann hefði óneyddur fundið til vanmáttar síns og sagt af sjer embætti. En hins vegar hefir það altaf verið venja mín í opinberum málum að meta málefnið meira en manninn, og þeirri reglu fylgi jeg hjer. Jeg ætla mjer ekki að fara að telja upp allar stjórnarsyndir atvinnumálaráðherra, því bæði hefir það verið gert nokkuð rækilega á síðasta þingi, og svo hefir meðflm. minn (S. St.) talað um flestar þeirra. Jeg vildi að eins með nokkrum orðum lýsa stjórnarhæfileikum og stjórnarferli hans alment, og þá um leið ef til vill taka nokkur dæmi til skýringar máli mínu.

Þau störf, sem atvinnumálaráðherrann hefir með höndum, eru langþýðingarmest af störfum stjórnarinnar, sjerstaklega nú á þessum erfiðu tímum. Undir þann ráðherra heyra öll verslunarmál landsins, öll atvinnumál o. s. frv. Í þann sess verður því að skipa mann með sæmilega þekkingu á þessum málum. En það er ekki nóg, að hann hafi þekkingu á þeim; hann þarf einnig aðhafa til að bera starfsþrek, dugnað og einurð til að láta þá þekkingu koma að notum í framkvæmdinni. Ef nú er litið til atvinnumálaráðherrans, hvort hann hafi þessa hæfileika til að bera, þá er því til að svara, að jeg hygg, að hann hafi sæmilega þekkingu á vissum sviðum innan síns verkahrings, og það er sannfæring mín, að þekkingarskortur hefði ekki þurft að verða honum að fótakefli, ef hann hefði haft hina hæfileikana, sem jeg nefndi, til að bera. En það er nú síður en svo sje. Það er varla hægt að gera þá kröfu til manns, sem er kominn nær sjötugu, að hann hafi það starfsþrek, sem atvinnumálaráðherrastaðan útheimtir, en hins mætti vænta, að hann, þrátt fyrir aldur sinn, hefði haft kjark, einbeitni og einurð til að stýra þeim málum, sem undir hann heyra, með því viti, sem honum er gefið, án þess að láta áhrif annara hlaupa með sig í gönur. En það er einmitt hikið, ístöðuleysið og kjarkleysið, sem mest hafa stutt að því, að gera stjórn hans gersamlega óhæfa. Allir þessir brestir hafa greinilega komið fram í afskiftum hans af landsversluninni, Landsbankanum, samgöngu- og vegamálum, að ógleymdum þeim fáu embættaveitingum, sem hann hefir fengist við. Jeg hefi áður bent á hjer á þingi, í hve öfugt horf landsverslunin var komin á fyrra stjórnarári atvinnumálaráðherrans, og nenni jeg ekki að hafa það upp aftur hjer, en skal að eins geta þess, að sennilega hafa þá miljónir farið í súginn fyrir ráðlauslega stjórn verslunarinnar, og jeg hefi fylstu ástæðu til að halda, og jafnvel vissu fyrir því, að atvinnumálaráðherra átti ekki frumkvæði að því, að nýir og betri forstöðumenn voru skipaðir við verslunina, sem komu henni í betra horf. Hann mun að vísu hafa látið það afskiftalaust, og var það í sjálfu sjer þakkarvert, því það mun vera eitt af þeim fáu skiftum, sem hann hefur farið eftir ráðum sjer vitrari og betri manna.

Ef hæstvirtum atvinnumálaráðherra skyldi detta í hug að segja, að þetta sje að eins staðhæfing út í loftið, þá vil jeg geta þess, að það er sannanlegt, og þegar sannað, að reikningar landsverslunarinnar voru í hinni mestu óreiðu; hver endurskoðandinn á fætur öðrum var fenginn til að yfirfara þá, án þess að fá nokkurn verulegan botn í þeim, þótt hæfir menn væru. Það er einnig sannanlegt, að það var á ýmsan hátt á þeim tíma tafið fyrir kaupmönnum og þeim gert erfitt að birgja landið að vörtum, að óhæfir starfsmenn voru skipaðir við landsverslunina, sem ekki voru starfi sínu vaxnir, og að verslunarviðskifti Íslands við Ameríku voru þá í mesta ólagi.

Allir þekkja ástandið í Landsbankanum. Öllum sárnar það og gremst það, og jeg hygg, að allir góðir Íslendingar mættu bera kinnroða fyrir það, að stofnun, sem landið á að hlynna og hlú að, skuli njóta miklu minna trausts landsmanna, skuli vera eins og skuggi hjá annari samskonar stofnun, sem útlendir auðkýfingar eiga hjer í bæ. En hverjum er um að kenna? Og hver ætti að geta lagfært þetta ástand? Er það ekki atvinnumálaráðherra, sem hefir þar mest um að segja.

Eins og kunnugt er, er fjárhagur landsins nú mjög bágborinn, og aldrei hefir riðið meira á en nú, að fje landsins sje vel varið. Það vita allir, að það er mikið komið undir atvinnumálaráðherranum, því hann ávísar í raun og veru stærstu fjárhæðunum, þótt fjármálaráðherra geri ráðstöfun til útborgunar á þeim. Það hefir verið sýnt fram á, að stjórnin hefir varið stórum fjárhæðum til ýmsra fyrirtækja, sem ýmist hefði alls ekki átt að framkvæma, eða þá bíða betri tíma, þar til fjárhagurinn batnaði.

Það eru ekki ýkjamargar embættaveitingar, sem heyra undir atvinnumálaráðherrann, en þó er það svo, að flestar þeirra hafa vakið almenna óánægju og gremju, enda hafa sumar þeirra verið hreint og beint hneyksli, eins og t. d. veiting póstafgreiðslustarfsins á Seyðisfirði. Þar var farið þvert ofan í og skelt skolleyrunum við eindregnum tillögum póstmeistara, sem er allra manna kunnugastur og fróðastur um póstmál hjer á landi og er viðurkendur, bæði utan og innan sinnar stjettar, sem hlutdrægnislaus heiðursmaður. Hæstv. atvinnumálaráðherra vildi halda því fram í ræðu sinni, að tillögurjettur póstmeistara væri að eins form, sem engin ástæða væri til að láta sig skifta, og því mætti vel ganga fram hjá því, en jeg vil benda þeim góða manni á, að það er „form“, sem viðgengst um allan mentaðan heim og öll veitingavöld telja sjer skylt að taka mikið tillit til. Atvinnumálaráðherra komst líka í óþægilega mótsögn við sjálfan sig rjett á eftir, þegar hann var að verja fjáraustur sinn úr landssjóði til ýmsra vegagerða. Þá sagði hann sjer til afsökunar, að hann hefði oftast farið eftir tillögum vegamálastjóra. Þá hefir honum þótt það meira en formið tómt að taka tillit til þeirra manna, sem höfðu glögga þekking á þeim málum, sem hann sjálfur botnar ekkert í. Þótt engar tillögur hefðu legið fyrir frá póstmeistara, þá hefði nokkurn veginn heilbrigð dómgreind átt að geta skorið úr því, að sjálfsagt var að veita embættið fremur vönum póstmanni en manni, sem aldrei hafði fengist við póstmál áður.

Allur stjórnmáláferill Sigurðar Jónssonar hefir verið eins og ganga blinds manns um grýttan veg. En blindir menn þurfa venjulega stuðnings, og eins er það um þennan ráðherra. Hann er studdur hjer á þingi af svo kölluðum „Framsóknarflokki“. Ef atvinnumálaráðherra hefði einskorðað sig við að halda sjer við ráð flokksbræðra sinna á þingi, þá tel jeg ekki ólíklegt, að margt hefði farið öðruvísi, og ef til vill betur en farið hefir. En því er nú ekki að heilsa. Það er vitanlegt og alkunnugt, að atvinnumálaráðh. hefir alla sína ráðherratíð verið undir áhrifum alræmdrar, að jeg ekki segi illræmdrar, klíku hjer í bæ, eða líklega sjerstaklega tveggja manna, sem hafa notað sjer ellihrumleik og ístöðuleysi hans til að koma sínum vilja fram. Ef Sigurður Jónsson hefði í sínum stjórnarstörfum látið samvisku sína og það vit, sem honum er gefið, ráða, þá hefðu þau farið honum betur úr hendi en raun er á orðin, þar sem hann hefir oftast farið eftir ráðum sjer margfalt verri manna.

En um slíkt þýðir ekki að ræða; stjórn hans hefir reynst með öllu óhæf, og því er þessi vantraustsyfirlýsing fram komin. Hvort sem hún fær fleiri eða færri atkv., þá er það víst, að það var brýn nauðsyn á, að hún kæmi fram, til þess að það sæist svart á hvítu, hverjir á þinginu eru ánægðir með eða sætta sig við stjórnarfarið, eins og það er nú í þessu landi, og hverjir ekki.

Það hefir verið borin fram dagskrá þess efnis, að ekki hlýði að samþykkja þessa vantraustsyfirlýsingu vegna þess, að það geti orðið til þess að spilla eindrægni um sambandsmálið, og hv. 6. landsk. þm. (G. B.) hefir með mörgum hjartnæmum orðum mælt með þessari dagskrá. Það hljóta nú allir að sjá, að dagskráin hefir ekki við neitt að styðjast. Sambandsmálið er hjer um bil komið í örugga höfn, svo að stjórnarskifti gætu engin áhrif haft á úrslit þess. Það getur verið þægilegt fyrir þá menn, sem vilja halda dauðahaldi í þessa stjórn, að nota sambandsmálið, okkar helgasta mál, eins og nokkurskonar skálkaskjól til að hylja ósómann í stjórnarfari landsins, en jeg trúi ekki öðru en það verði fleiri en við flm., sem sjái, til hvers refarnir eru skornir, og greiði atkv. móti dagskránni.