09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (168)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Jón Jónsson:

Hv. síðasti ræðumaður (H. St.) mintist á hina rökstuddu dagskrá, og vil jeg byrja á því að athuga lítið eitt ræðu hans. Mig furðar alveg á því, að heill flokkur í þinginu skuli geta komist að þeirri niðurstöðu, sem kemur fram í rökstuddu dagskránni, því mjer skildist svo, að hún væri yfirlýsing frá flokki þeim, sem hv. þm. (G. B.), er dagskrána bar fram, er formaður fyrir. Hann heldur því fram, að óheppilegt sje að skifta um stjórn vegna sambandsmálsins. Það fæ jeg ekki sjeð; nú horfir alt öðruvísi við með það en í vor; nú er það komið í fast horf; sameiginleg nefnd Íslendinga og Dana hefir komið sjer saman um það, og því nær full vissa fyrir, að Danir muni samþykkja gerðir sinna manna, og hjer á þingi hafa 38 af 40 þm. samþykt það. Þar á meðal allir ráðherrarnir. Þegar málið er komið í svona fast horf, þá er varla hugsanlegt, að stjórnarskifti geti ruglað því eða tafið fyrir framgangi þess. Jeg er sannfærður um, að þjóðin muni taka málinu eins vel og þingið hefir gert, þegar til hennar kasta kemur að greiða atkv. um það. Frá hverri hlið, sem litið er á málið, sýnist framgangur þess orðinn svo tryggur, sem framgangur nokkurs máls. Mig furðar því á Heimastjórnarflokknum, sem veit eins vel og jeg um alla þessa afstöðu, að hann skuli láta bera fram aðra eins dagskrá og þessa, sem varla verður öðruvísi skilin en svo, að hann vilji halda afstöðu sinni til ráðherranna leyndri, því að það má hann vita, að hann getur aldrei talið þjóðinni trú um, að það sje vegna sambandsmálsins, að hann vill halda stórninni kyrri; en þá er leynihjúpnum í raun og veru svift af, og hann stendur ber að því, að hann vill taka á sig ábyrgð á því, að ráðherrarnir sitji. En við eitt losast hann með þessari aðferð; hann losast við að lýsa trausti eða vantrausti á ráðherrunum, og við það getur mikið verið unnið, frá hans sjónarmiði, en hann má best vita sjálfur, hvort sú frammistaða sje uppbyggileg fyrir kjósendurna eða ekki. Jeg lít nú svo á, að þeir, sem ekki eru ánægðir með stjórnina, hafi sýnt næga sjálfsafneitun, að láta stjórnina í friði meðan sambandsmálinu gat verið hætta búin af stjórnarskiftum, og að nú sje þeim óhætt að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir, og því get jeg ekki verið sammála þeim, sem ekki vilja samþykkja vantraustsyfirlýsingu á stjórnina nú, eða nokkurn hluta hennar.

Þegar stjórn sú, sem nú situr að völdum, var sett á laggirnar, þá var ekki hægt að mynda neina meiri hluta stjórn, og fylgi hvers ráðherrans um sig því ekkert meiri hluta fylgi. Þó var fylgi atvinnumálaráðherrans eflaust minst; að minsta kosti var það svo fyrst innan hans flokks, því að þegar til kosninga var gengið um ráðherraefni innan flokksins, fjekk hæstv. atvinnumálaráðherra ekki nema eitt atkv., að mig minnir. Þm. N.-Þ. (B. Sv.) fjekk 6 atkv. og prófessor Guðm. Hannesson 4 atkv. En hæstv. forsætisráðherra baðst undan því að hafa þm. N.-Þ. (B. Sv.) fyrir samverkamann, og þá varð það loksins ofan á, að hinn núverandi atvinnumálaráðherra var settur í ráðherrasess. Hæstv. atvinnumálaráðherra hafði því upphaflega ekki fylgi nema eins manns, og það þó takmarkað, og það var ekki fyrir sakir trausts flokks hans á honum, að hann komst í ráðherrasess, heldur var hann settur þar út úr vandræðum og af því, að hann var sjálfur allfús á að taka að sjer starfið, en aðrir úr flokknum voru þess ófúsir.

Af þessu, sem hjer er sagt, má sjá, að hæstv. forsætisráðherra á sinn þátt í því, hver nú er atvinnumálaráðherra, enda ber ekki á öðru en að hann sje óánægður með þennan samverkamann sinn, og hinn samverkamanninn líka. Þessi skoðun styrkist meðal annars við það, að flokkur hæstv. forsætisráðherra, Heimastjórnarflokkurinn, ætlar, eftir því sem formaður flokksins lýsti yfir fyrir skemstu, að taka þessa tvo ráðherra til fósturs um sinn.

Það er síst að furða, þótt hæstv. atvinnumálaráðherra hafi ekki reynst starfa sínum vaxinn, þar sem honum er varpað inn í þessa ábyrgðarmiklu og erfiðu stöðu háöldruðum, alls óvönum stjórnmálastörfum og lítt kunnugum mönnum og málum, þar sem hann átti að vinna. Þegar alls þessa er gætt, má jafnvel segja, að hann hafi leyst starf sitt af hendi fult svo vel og við mátti búast; því að satt að segja gerðu flokksmenn hans sjer aldrei glæsilegar vonir um frammistöðu hans, hvað þá aðrir. Þar skjátlaðist hv. þm. N.-Ísf. (S. St.).

Það hefir verið talað ýmislegt um stjórnarstörf hæstv. atvinnumálaráðh., og jeg verð að segja, að jeg er óánægður með ýms þeirra. Jeg skal sjerstaklega taka það fram, því það hefir vakið svo mikla eftirtekt víða um land, að það er ómótmælanlegt, að utan um ráðherra þennan hefir safnast flokkur ábyrgðarlausra manna, sem slær skjaldborg um hann og hefir ánetjað hann. Það er alkunna og margföld reynsla fyrir því, hvílíkt tjón og siðspilling fylgir því, þegar ábyrgðarlausir menn ná föstum tökum á stjórn landa og nota hana einhliða í sína þágu eða síns flokks. Það er alveg sjerstök mildi, ef stjórn og land sleppur óskemt frá slíkum áhrifum. Jeg hefi þá skoðun, að hæstv. atvinnumálaráðh. sje ekki frjáls maður gerða sinna, heldur stjórnist mjög af öðrum; og jeg hefi litla trú á, að hann muni hafa þrek til að slíta sig úr netinu, sem hann hefir lent í — jeg þarf ekki að nefna nöfn; margir skilja án þess, við hvað jeg á. Þetta er eitt óánægjuefni mitt. En óánægjuefnin eru fleiri, þótt þau kunni að eiga að miklu leyti rót að rekja til hins.

Það hefir verið minst á, að hæstv. atvinnumálaráðh. hafi sýnt ófyrirgefanlega hlutdrægni í embættaveitingum og sýslana. Slíkt er viðkvæmt mál og hættulegt fyrir hverja stjórn og hvert land, þar sem brögð gerast að slíku. Með því er embættismannastjettin móðguð, og einhver hinn vissasti vegur til að spilla henni, er hún sjer, að dugnaður, samviskusemi og aðrir góðir kostir er að vettugi virt, og engin stund lögð á það af stjórninni að skipa hæfustu og verðugustu mennina í embættin, sem hún á að veita; það er þó varla trúlegt, að hæstv. atvinnumálaráðh. hafi átt við það í ræðu sinni, að þetta væri orðin úrelt kredda, þar sem hann var að tala um í þessu sambandi, að nýir tímar heimtuðu nýjar stefnur; hitt er líklegra, að hann hafi verið að kasta fram einni af þessum almennu setningum, sem honum er svo gjarnt að koma með, en hafa þann galla, að þær koma ekki umræðuefninu við, þótt góðar og gildar sjeu þar, sem þær eiga heima.

Það hefir verið talað um veitingu póstafgreiðslunnar á Seyðisfirði, og hæstv. atvinnumálaráðh. lítið lof hlotið fyrir hana. En það er annað embætti, sem grunur leikur á að sje sama sem búið að veita, þótt eigi sje það opinbert orðið; það er umsjónarembættið með vog og mæli, og ef það er satt, sem á orði er haft, þá væri sú veiting óverjandi, því hún bygðist ekki á hæfileikum umsækjenda, heldur á pólitískri vináttu. Hæstv. atvinnumálaráðh. verður að gæta þess, að heiðursmannsnafni hans hjá þjóð og sögu landsins getur orðið hætta búin af slíkum veitingum. Í sambandi við þetta skal jeg minnast á eitt atriði, er snertir hæstv. forsætisráðh. Því er fleygt, að ráðgert sje að veita vissum manni læknisembættið á Ísafirði, og að þessi maður sje ungur kandidat, að vísu efnilegur, en að ganga eigi fram hjá margra ára lækni, sem ekki verður að neinu leyti út á sett. Sje þetta satt, þá er enn verið að rjetta eldri embættismönnunum einn löðrunginn. Hvað segir hæstv. forsætisráðherra um þetta? Jeg vona, að honum sje ljúft að svara mjer. Mjer finst, eins og nú er komið embættaveitingum, að þjóðin eigi heimting á að fá að vita fyrirætlanir stjórnarinnar um þær, þegar fulltrúar hennar krefjast þess. Jeg átti tal um embættisveitinguna á Ísafirði við lækninn á Vopnafirði, sem er einn af umsækjendum læknishjeraðsins; kvað hann sjer vera mikil forvitni á að vita, eftir hvaða reglum veitingavaldið færi, ef það veitti embættið ungum kandidat, en hafnaði eldri og reyndari mönnum. Það er von, að slík aðferð slái óhug á embættismennina; þeir sjá, að það er lítil framavon, þótt þeir reyni að vanda sig, og það væri varla meira en mannlegt, þótt þeir drægju fremur af sjer. Þetta held jeg að hæstv. forsætisráðh., sem sjálfur er embættismaður, mundi skilja enn betur en embættisbróðir hans, atvinnumálaráðh. Getur hæstv. forsætisráðh. ekki gert sjer í hugarlund, að ef embættaveitingar taka að gerast mjög af handahófi, þá muni ýmsir hinna dugmeiri af embættismönnum hverfa frá embættum sínum og taka annað fyrir; þeir eru, hvort sem er, ekki svo ánægðir með kjör sín að öðru leyti undir stjórn hans. En hann treystir því líklega, að altaf muni fást maður í manns stað, og stjórnina varði það ekki miklu, hvort hún hafi nokkru duglegri eða óduglegri embættismönnum á að skipa, nje heldur landið.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) mintist á margt í sambandi við embættaveitingarnar og flutti mál sitt skörulega. Þó fanst mjer hann fara helst til langt í einstaka atriðum, svo sem um sum afskifti hæstv. atvinnumálaráðh. af Landsbankanum; þannig get jeg ekki átalið hann fyrir veitinguna á landsbankastjóraembættinu; jeg fæ ekki betur sjeð en að hún hafi tekist vel og að bankastjórinn sje vel til starfans fallinn; hinn manninn, sem settur var, þekki jeg ekki sem bankastjóra, og dæmi því ekki um hann.

Jeg er að nokkru leyti sammála því, sem hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) talaði um vegamálin; þó mun hann hafa gengið þar heldur langt í sparnaðaráttina. Það má í allra seinustu lög skirrast við að framkvæma bráðnauðsynlegar vegabætur. Mín skoðun er sú, að samgöngubætur sjeu einar af allra fremstu þjóðþrifaframkvæmdum, og þótt nú sjeu erfiðir tímar, megum við ekki kippa að okkur hendinni með að bæta vegi og brýr, þar sem brýn þörf kallar að. Þó verður fje að vera fyrir hendi til slíkra framkvæmda.

Hv. þm. (S. St.) talaði um, að stjórnin væri þinglaus og þingið stjórnlaust, ef þessu hjeldi áfram. Það er mikið til í þessu, og það fer að verða þreytandi fyrir þjóð og þing, og lítt verjandi, að búa lengi undir slíku. Það er allra mesti misskilningur hjá hv. fylgjendum hinnar rökstuddu dagskrár, ef þeir hugsa, að þeir geti kastað ryki í augu þjóðarinnar með henni. Allir heilskygnir menn sjá það, sem dylja á með henni.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) drap á það, að stjórninni mundi verða lofað að lafa af persónulegum ástæðum. Má vera, að eitthvað sje til í þessu, að minsta kosti um atvinnumálaráðh. En jeg tók þó eftir því í vetur, að blað hans, „Tíminn“, var á því að fresta fánamálinu, og svo leit út um stund, sem þessi skoðun mundi verða ofan á hjá flokki hans, eða að minsta kosti varð vart við hana hjá einstökum flokksmönnum. Mun þetta ekki hafa komið af því, að þeir, sem þessu hjeldu fram, hafi ekki viljað stofna ráðherratign atvinnumálaráðh. í hættu, því að undarlegt var, að þeir, sem greiddu atkv. með fánamálinu, skyldu alt í einu komast á þá skoðun, að best væri að leggja það á hilluna, því lægi ekki á.

Hæstv. forsætisráðh. talaði um, að stjórnina greindi ekki á í þeim málum, sem hún ætti að vinna að í sameiningu. Það getur verið; jeg er því ókunnugur. Á hann hefir ekki verið gerð árás, og sjálfur ætti hann manna síst að ráðast á þá menn, er vilja gera breytingar til góðs á stjórnarfyrirkomulaginu. Jeg skil ekki í, að hann sje svo skyni skroppinn, að hann vilji halda ljelegum manni, en hafna öðrum betri, ef völ er á, og hann veit, að góður maður er til í sætið; en ef dæma má eftir dagskrá flokks hans, lítur út fyrir, að hann vilji halda dauðahaldi í hinn núverandi atvinnumálaráðh., eigi síður en fjármálaráðherrann.

Það er alment játað, að hæstv. forsætisráðherra hafi sýnt mikla lægni í samningunum við Dani, og er sjálfsagt að virða það við hann. Það er líka viðurkent, að hann sje maður vel gefinn og að hann mundi miklu góðu til vegar koma, ef hann hefði duglega samverkamenn, en má ske skortir hann þann mikla stjórnandakost, að kunna að velja sjer samverkamenn; hefði hann þann hæfileika, þá er óskiljanleg framkoma hans gagnvart samverkamönnunum og fastheldni hans við þá; hann ætti þó að verða manna fegnastur að fá duglegri og samhendari samverkamenn. Það skyldi þó aldrei vera, að hæstv. forsætisráðh. fyndist það hyggilegt fyrir sig að fara að hallast að hinum nýju flokkum, sem nú eru að koma upp, sjerstaklega flokki hæstv. atvinnumálaráðherra, og að hann geri ráð fyrir, að þeir muni bráðum fá yfirtökin í landinu? En varla skil jeg þó í, að hann vilji leggja nútíðarheill landsins í sölurnar fyrir slíka framtíðardrauma; þá væri hann ekki sá drengur, sem hann er talinn vera.

Hæstv. atvinnumálaráðh. finst það ábyrgðarhluti fyrir sig að segja af sjer og gera með því glundroða í sambandsmálinu; kveðst hann ekki vilja gera slíkt kjósenda sinna vegna, meðan þeir fari ekki fram á það. En jeg held, að jeg megi fullvissa hæstv. atv.málaráðh. um það, að þjóðin mundi fyrirgefa honum það, þótt hann segði af sjer þegar í stað; um hitt er jeg ekki jafnviss, hvort hún muni eins ljúflega fyrirgefa honum það, ef hann situr kyr, eftir alt sem fram er komið.

Svo skal jeg víkja að eins fáum orðum að hæstv. fjármálaráðherra. Jeg lít líkt á og hv. þm. Snæf. (H. St.), að nokkru öðru máli sje að gegna með hann en atvinnumálaráðherrann, og að starf hans sje ekki jafnvíðtækt og þýðingarmikið sem atvinnumálaráðherra. Þó skal jeg geta þess, að jeg hefi ekki mikla trú á honum sem fjármálaráðherra. Og eitt hefir nýlega komið fyrir hjá honum, sem mjer þykir miður fara. Á síðasta þingi voru, sem kunnugt er, samþykt lög um stimpilgjald. Það hefir dregist lengur en góðu hófi gegnir að fá lög þessi staðfest, og landssjóður við það mist af töluverðum tekjum. Þetta er vítavert og bendir á, að hæstv. ráðherra stendur ekki alls kostarvel áverði.

Hæstv. fjármálaráðherra tók það fram, að það hefði orðið ofan á 1917 að skipa stjórn til að ná samkomulagi um deilumálin út á við, og því hefðu ráðherrarnir verið teknir úr þrem flokkum. Þetta er ekki alls kostar rjett. Stjórnin var skipuð úr þrem þingflokkum af því, að ástandið var þannig, að enginn þingflokkurinn var nógu sterkur til að mynda meiri hluta stjórn. Ekki hefir ástandið batnað síðan. Ýmsir þingmenn, sem voru í flokki 1917, hafa gerst óánægðir með gerðir flokks síns og ráðherra, og sumir sagt skilið við flokkinn; er nú alt að komast á ringulreið, og fer þetta ástand að verða skringilegt í augum þjóðarinnar og alt annað en glæsilegt.

Ef engir þingflokkar væru nú til, þá mundi eflaust verða breyting á stjórninni. En hún mun lafa á því, að ýmsir í hverjum flokkinum fyrir sig vilja eigi segja skilið við sinn ráðherra og sinn flokk, þótt flokkarnir hafi nú engin þau stefnumál, sem flokksmenn allir geti skrifað undir, og fyrir sambræðing allra flokkanna, eða rjettara sagt flokksbrotanna, sitja allir ráðherrarnir kyrrir. En með þessu verður eigi gagnvart þjóðinni breitt yfir sundrungina í þinginu, og síst mun ástandið í þinginu, ef ekki hreinsast neitt loftið, verða til meðmæla fyrir alla þingmenn, þegar til kosninga verður gengið.

Skal jeg svo ekki fara lengra út í þetta mál því jeg get ekki verið að tína upp allar ávirðingar hæstv. atvinnumálaráðherra.