09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í C-deild Alþingistíðinda. (171)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Bjarni Jónsson:

Jeg skal leyfa mjer að segja örfá orð sökum þess, að jeg er formaður í einum þeirra flokka, sem styðja þessa stjórn.

Jeg skal reyna að halda mjer við efnið, enda eru það að eins almennar athugasemdir, sem jeg ætla að gera.

Þýðir ekki fyrir mig að taka þátt í þeim kappræðum, sem hjer hafa fram farið, nema að því leyti, sem það stendur í nánu sambandi við það, sem jeg hefi að segja. Þess þarf ekki heldur, því að vörnin hefir ekki skjöplast hæstv. ráðherrum, því að svo líst mjer, sem frekar sje sókn en vörn af þeirra hálfu.

Að vísu forðast þeir öll stóryrði og hermdaryrði, sem og er rjett, í stað þess að tala sem á skrílfundi. En slíkt er ekki viðeigandi á þjóðþingi Íslendinga.

Skal jeg nú víkja að ræðuefni mínu.

Fyrst vil jeg þá minna á, hverjar orsakir lágu að samsteypustjórninni. Menn muna, að þegar fjölgað var ráðherrum og komið á nýju stjórnarfyrirkomulagi, var enginn flokkur þingsins í svo miklum meiri hluta, eða svo sterkur, að nokkur einn maður treystist til að taka stjórnartaumana í sínar hendur. Hvað átti nú til bragðs að taka? Eina ráðið hefði verið að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. En þetta bar að um miðjan vetur, og þótti mönnum því illkleift að ráðast í slíkt, eftir nýafstafnar kosningar. Það var því ekki annars kostar en að koma á samsteypustjórn. Menn muna, að það stóð í töluverðu stappi um það, hvernig stjórnina skyldi skipa, eftir að flokkarnir höfðu komið sjer saman um að vinna hver með öðrum. Tveir flokkarnir heimtuðu forsætið, Sjálfstæðisflokkurinn og Heimastjórnarflokkurinn. Þó varð það fyrir milligöngu góðra manna, að saman gekk, og aðalástæðan var sú, að núverandi forsætisráðh. gekk að stefnuskrá vor sjálfstæðismanna. Lýsir hann því í stefnuræðu þeirri, er hann hjelt þá er stjórnin tók við. Niðurlag þeirrar ræðu hljóðar svo, með leyfi forseta: „Um eitt erum vjer einhuga, að vinna að því af fremsta megni, að þjóðin nái fullum yfirráðum yfir öllum málum sínum, og afráða ekki neitt í sjálfstæðismálum þjóðarinnar án vilja og vitundar þeirra þingflokka, er veita ráðuneytinu fylgi sitt“.

Var nú stjórnin skipuð, og skipaði hana af hálfu vor sjálfstæðismanna hv. 1. þm. G.-K. (B. K.).

Það er auðsjeð af ræðu hæstv. forsætisráðherra, að það, sem gerði samtökin, var samlyndið um þetta aðalstórmál þjóðarinnar, sem afgreitt var í morgun sem lög frá Alþingi. Síðan hefir verið stefnt að þessu takmarki, og hefir það altaf verið efst í huga allra góðra manna að gera það eitt, sem eflt gæti þetta samlyndi, og að vinna á móti öllu því, sem óhlutvandir menn gera til þess að brjála eða rugla þetta samlyndi, og þetta hefir tekist til þessa: Sambandslögin hafa hlotið samþykki Alþingis Íslendinga, en eftir er hvorttveggja, samþykki Íslendinga og samþykki sambandsþjóðar vorrar. En nú er það venjan á öllum þjóðþingum hins siðaða heims, að stjórn, sem hrindir af stokkunum einhverju stórmáli, er látin standa við stjórnvölinn þar til yfir lýkur í því máli. En það er óheyrt, að einum eða fleirum ráðherrum, sem unnið hafa að framgangi þess stórmáls, sje vikið frá. Því fremur er líka ástæða til að amast ekki við þeirri stjórn, sem forystuna hefir nú, að það er alkunna, að samvinna hefir verið góð, og ekki borið á öðru en að stjórnin hafi haft samfeldan meiri hluta að baki sjer, og í þessu höfuðmáli vor Íslendinga, sambandsmálinu, hefir samfeldur meiri hluti staðið að baki stjórnarinnar. Jeg get skilið, að kappgjarnir menn segja áður en gengið er til atkv., í hita, að meiri hluti þm. sje andsnúinn stjórninni, en þó finst mjer það alldjarft að segja slíkt, því að, að lokinni umræðu, eru það atkvæðin, sem segja til um fylgið.

Háttv. flm. (S. St.) kvartaði undan því, að vantaði samfeldan meiri hluta þingsins, að baki stjórnarinnar.

Jeg var og er líka þeirrar skoðunar, að slíkt væri betra. En hvernig fæst sá meiri hluti?

Það er engin trygging, þótt menn riðlist hjer á milli flokka í þinginu; það er að eins við kosningar sem sá meiri hluti skapast.

Hans yrði því að bíða til næstu kosninga, enda verður það ekki löng bið, þar sem kosningarnar eiga að fara fram strax eftir næsta þing.

Þá mun það sýnt með atkvæðagreiðslunni hjer í kvöld, hvort þessir þrír flokkar halda áfram að vera með stjórninni eða ekki. Fari einn flokkurinn frá, er samkomulaginu lokið, og verður þá að leita samkomulags aftur. En ekki get jeg sjeð, að það samkomulag verði að neinu leyti sterkara, því ef einn eða tveir flokkar sleppa stjórninni, hvað verður þá?

Reynist enginn flokkurinn nógu sterkur til að mynda nýja stjórn, þá verður að leita aðstoðar hinna flokkanna, sem sumir eru skipaðir einum manni. En hvort það verður tryggara, að fleiri sjeu flokkar stjórnarinnar með færri mönnum hver, það dreg jeg mjög í efa.

Þá hafa sumir viljað halda því fram, að í hinni rökstuddu dagskrá, sem fram er komin, fælist vantraust. En það eru þeir menn einir, sem að baki standa vantraustsyfirlýsingunni, og mun þeirra skilningur ekki verða ráðandi. Í raun og veru er dagskrá ekki annað en aðferð til að fella mál.

Það mun því koma fram, ef dagskrá þessi verður samþykt, að þessir flokkar ætla að vera áfram um stjórnina með sama fylgi og fyrst, er þeir lögðu til sinn manninn hver.

Í dagskránni getur því ekkert vantraust falist.

Nú tel jeg víst, að hún verði samþykt, en um form hennar er það að segja, að hún er komin frá formanni Heimastjórnarflokksins, og Sjálfstæðisflokknum er með öllu sama, hvaða aðferð er höfð til þess að fella vantraustsyfirlýsinguna.

En því var lýst yfir í gær á fundi í Sjálfstæðisflokknum, að ráðherra sá, er hann styður, hafi enn þá óskorað fylgi flokksins.

Árásirnar á hæstv. fjármálaráðherra hafa því reynst gerðar meir af vilja en mætti, þar sem líka flestar gerðir hans hafa verið samþyktar af vantraustsfylgjanda, að undanskildu farganinu svo nefnda, sem nú er ekki orðið annað en einkisvert árásargargan, í höndum hv. flm. (S. St.).

Þetta var það, sem jeg vildi sagt hafa, og um leið skal jeg lýsa yfir því aftur, að hæstv. fjármálaráðh. hefir óskift fylgi Sjálfstæðisflokksins, og er sá flokkur fús til samvinnu áfram, ef vantraustsyfirlýsingin verður feld.