09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í C-deild Alþingistíðinda. (176)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Guðmundur Björnson:

Jeg skal ekki tefja tímann lengi. En jeg verð að minnast á eitt atriði í ræðu hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), ekki af því, að þar væri ómaklega mælt í minn garð, sem þó var, heldur af því, að það var ómaklega mælt í garð eins flokks, Heimastjórnarflokksins og um leið allra annara flokka þingsins. Þetta atriði var það, er hv. flm. vantrauststill. (S. St.) sagði, að honum væri það kunnugt, að hver einstakur flokkur í þinginu væri óánægður með sinn ráðherra. Jeg lýsi þetta rakalaus ósannindi um Heimastjórnarflokkinn. Hann er mjög vel ánægður með ráðherra sinn, og það hefir komið berlega í ljós á fundum flokksins. Og jeg vil segja meira. Jeg veit ekki betur en allir flokkar þingsins beri fult traust til hæstv. forsætisráðherra. Mjer hefir jafnvel skilist á hv. flm. (S. St.), sem hann vildi alls ekki bera hann neinum sökum nje telja hann maklegan vantraustsyfirlýsingar.

Jeg verð að telja það miður sæmilegt, að þingmaður beri þingbræðrum sínum það á brýn, að þeir þori ekki að standa við skoðanir sínar.

Það var margt, sem hv. sami þm. (S. St.) sagði til mín, en því ætla jeg ekki að svara. Jeg var spurður um það hjer frammi í forsalnum, hvað jeg ætlaði að gera og hverju jeg ætlaði að svara honum. En þá sagði jeg, og segi nú: Jeg veit ekki, hvort jeg er þeim mun ver máli farinn en aðrir, sem mjer er minna um það gefið en hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) að gera mig að athlægi í þingsölunum.