09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (178)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Gísli Sveinsson:

* [*Vegna óviðráðanlegra atvika gat þingmaðurinn (G. Sv.) hvorki lesið þessa ræðu nje leiðrjett, áður en hún var prentuð. Er hún því prentuð hjer eins og hún er frá hendi innanþingsskrifaranna, og vill þingmaðurinn láta þess getið.]

Jeg skal fyrst og fremst leyfa mjer að víkja með örfáum orðum að hv. þm. Ísaf. (M. T.). Hann þóttist þurfa að taka til máls, til þess að verja afstöðu sína til þessarar vantraustsyfirlýsingar, sem nú er til umræðu. En menn hefðu búist við, að hann hefði gert það betur, eftir allan þann gauragang, sem hann hefir gert í hinu mikilfenglegasta máli, sem legið hefir fyrir Alþingi Íslendinga. Hann taldi þessa vantraustsyfirlýsingu vera barnaleik, vegna þess, að hún væri ekki látin ná til allrar stjórnarinnar, og sagði hann, að hæstv. forsætisráðherra væri sá af ráðherrunum, sem mest hefði syndgað, og stæði sjer því næst að gefa honum vantraustsyfirlýsingu. Mjer finst nú, satt að segja, vera hægurinn hjá fyrir hann að nota nú tækifærið og skella á hann vantraustsyfirlýsingu. En hitt kemur mjer á óvart, að hann skuli ekki vilja vera með vantraustsyfirlýsingu til hinna ráðherranna, því að þeir standa þó við hlið hæstv. forsætisráðh. um að leiða sambandsmálið til lykta á þennan hátt, og þeir vilja eiga sinn þátt í því. En mjer skilst, að þessi vægðarsemi hv. þm. Ísaf. (M. T.) sje sprottin af ótta við það flokksbrot, sem hann lenti í, er hann kom fyrst á þingið 1916. Þegar hann kom hingað suður 1916, ljet hann orð falla um það, að hann væri viðbúinn að ganga í hvern þann flokk sem var. Hann gerði tilraun til þess að komast inn hjá okkur, sem kallaðir höfum verið langsummenn, og eitthvað var hann að dufla við Heimastjórnarflokkinn, en í þversum lenti hann. En þar sem hvorki sá flokkur nje við eða Heimastjórnarmenn vildum styðja slíkan mann til ráðherratignar, en það var skilyrðið fyrir öruggu flokksfylgi hans, þá fór hann að draga sig eftir Framsóknarflokknum, en hann var eini flokkurinn, sem eftir var. Tók hann (M. T.) nú upp margar stefnur, til þess að þóknast þeim mönnum, bæði utan þings og innan, sem þar ráða mestu. En þó að furðulegt megi heita, þá vildi jafnvel ekki þessi flokkur hafa neitt saman við hann að sælda, og því er honum nauðugur einn kostur, að hanga í flokki þversummanna, þar sem hann og lenti fyrst er hann kom, svo sem jeg hefi frá skýrt. En þó að þessu væri nú ekki svona farið, þá mun margan úti í frá furða stórkostlega, að hann skuli nú geta haft mök við þá menn, sem hann hefir sagt um, að brugðist hafi í sjálfstæðismáli þjóðarinnar, — menn, sem hann hefir sagt um það, sem að efni til er hið sama og landráðamenn og föðurlandssvikarar. Slíkt hið sama hefir skoðanabróðir hans, hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), sagt berum orðum, og kveðið enn fastar að heldur en hv. þm. Ísaf. (M. T.). Þá vildi hann (M. T.) bera því við, að hann vildi ekki ganga að verki með mönnum, sem stæðu mjer nærri, þar sem jeg væri enn þá meiri föðurlandssvikari en hans flokksmenn, þar sem jeg hefði áður verið sá eini þm., sem hefði lýst sig fylgja skilnaðarstefnu.

Jeg hefi áður í heyranda hljóði, bæði í ræðu og riti, lýst skoðun minni og afstöðu til þessa máls, og það er ómótmælanlegt, að ef frv. verður samþ., þá stöndum við miklu nær skilnaði heldur en áður. Ef þjóðin kýs síðar meir að fara þá braut, þá stendur hún nú opin og öllum fær, segi jeg, en svo var ekki áður. Þá sagði hv. sami þm. (M. T), og átti það að vera mjer til hnjóðs, að jeg hefði sagt í einni af ræðum mínum, að Danir hefðu sýnt okkur meiri tillátssemi með sambandslagafrv., og okkur orðið betur ágengt í frelsiskröfum okkar, heldur en jeg hefði getað búist við. Þessi hin sömu orð eða lík hafa bæði hv. þm. Dala (B. J.) og hæstv. fjármálaráðherra notað, og hafa hvorki þeir nje jeg meint nokkuð ilt með þeim, eða nokkur bilbugur af okkar hálfu í þeim falist, ekkert annað en það, að eftir framkomu Dana áður í okkar garð gátum við ekki búist við, að þeir sýndu slíkan skilning á kröfum okkar og frv. ber vott um. En það kemur auðvitað engum á óvart, þó að þessi hv. þm. (M. T.) vaði reyk í þessu sem öðru, er að þjóðmálum lýtur. Þykist jeg svo ekki þurfa að athuga ræðu hans meira.

Það hefir ekki komið neitt það fram í ræðum hv. þm., er í móti hafa mælt vantraustinu, sem jeg þarf að svara, nema ef vera skyldi hjá hv. fjármálaráðherra. Að vísu reis hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) upp úr sæti sínu og reyndi að bera blak af stjórninni, en ekki munu þeir margir hjer inni, sem muna orð hans, því ljeleg var vörnin, sem við var að búast, þar sem ætið er erfitt að verja illan og rangan málstað. Það var auðvitað, að upp mundu rísa tveir menn til þess að halda skildi fyrir stjórninni. Þeir eru nú báðir fram komnir, sem sje hv. þm. Dala. (B. J.) og hv. þm. S.-M. (Sv. Ó.), en vanmátkir hafa þeir verið, svo sem vita mátti. — Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) virtist telja það barnasjúkdóm, sem við hefðum borið stjórninni á brýn, þar sem við tölum um afglöp hennar og hneyksli. Þennan sjúkdóm taldi hann stafa af því, að verið væri að brjóta nýjar brautir, og virtist hann ólmur vilja að stjórnin hjeldi þar áfram uppteknum hætti. Hann ljet svo í veðri vaka, sem dagskráin væri sjálfsögð, og fæli hún í sjer traust á stjórninni. Mjer er með öllu óskiljanlegt, hvernig hægt er að „fá það út“, að með dagskránni sje bent á hæfileika umræddra tveggja ráðherra til þess að stjórna, því að með henni er ekki annað sagt en að menn treysti þeim ekki í sambandsmálinu, ef stjórnin yrði rekin frá. Það liggur því beinast við að ætla, að þeir, sem bera fram dagskrána, sjeu hræddir um, að stjórnin verði svo gröm út af brottrekstrinum, að hún í bráðræði eða af illmensku reyni að vinna sambandsmálinu mein. Með öðrum orðum, með dagskránni er ekkert annað sagt um stjórnina en ilt eitt, að hún sje ekki að eins óhæf stjórn, heldur og að mennirnir valdalausir gætu ef til vill orðið háskagripir og til alls búnir. Hann (Sv. Ó.) taldi og vantraustsyfirlýsinguna ósvinnu, sem ekki mætti bera fram, og sagði, að úr því að dagskráin væri borin upp fyrst, kæmi vantraustsyfirlýsingin ekki fram. En þetta er misskilningur hjá hv. þm. (Sv. Ó.), því að vantraustsyfirlýsingin er þegar komin fram, þótt hún svo aldrei verði borin undir atkvæði. Þá kom hv. þm. (Sv. Ó.) örlítið inn á embættaveitingar stjórnarinnar og fanst þær allar í besta lagi. Mig undrar það ekki, þótt honum finnist svo. En flestir líta nú á það mál nokkuð öðrum augum, eins og oft hefir verið vikið að, af mjer og öðrum, bæði fyr og síðar. En það er ekki að eins ýmislegt það, sem fram er komið af embættaveitingum stjórnarinnar, sem er vítavert, heldur hafa menn og illan bifur á því, sem menn vita að eftir er. Það er kunnugt um tvö embætti, sem eftir er að veita, þó að því hefði átt að vera lokið, að til mála hefir komið hjá stjórninni að veita þau mönnum, sem síst eiga þar heima. Á jeg við með þessu bæði Eiðaskólaembættin og forstöðu löggildingarstofu mælitækja og vogaráhalda. Um þetta síðara embætti hafa sótt meðal annara tveir mjög vel færir menn, en það mun sanni nær, að stjórnin ætli sjer að veita það þriðja manninum, sem er með öllu óhæfur til þess starfa. Eiðaskólinn hefir verið látinn bíða um sinn, og er það almælt, að það sje vegna þess, að stjórnin þori ekki að veita hann gæðingum sínum, sökum þess úlfaþyts, sem varð í blöðunum, er það frjettist, hverjir ættu að höndla hnossið. Það er því ekki að eins vegna hins liðna í embættaveitingum, að við viljum stjórnina frá, heldur og vegna þess, sem til stendur.

Hæstv. atvinnumálaráðherra var að tala um Tjörnesnámuna og ljet það um mælt, að hún hefði borið sig síðustu mánuðina. Hver mun þá vera niðurstaðan síðan í mars, ef hún hefir að eins borið sig síðustu mánuðina? En ef hún nú hefði getað borið sig altaf, væru það þá meðmæli með stjórninni, að hún hefir rekið hana eins og hún hefir gert?

Þá kem jeg að hæstv. fjármálaráðh. Jeg er efins í, hvort jeg á að taka hann alvarlega eða ekki, því nú var sá gállinn á honum, að jeg veit ekki, hvort hann hefir talað með fullum hug eða ekki. Hann var sem sje mjög æstur, og meira að segja svo æstur, að líklega mundi hann eiga betur heima í einhverri annari stofnun en Alþingi, og síst af öllu talaði hann með þeirri ró, sem samboðin er stöðu hans. Hann talaði um, að í Öskjuhlíðarfarganið hefði verið ráðist meðfram til þess að styrkja landsspítalann og afla grjóts til hans. Þetta er mjer með öllu óskiljanlegt, því að jeg trúi ekki öðru en að stjórnin hafi getað fundið einhverja aðra leið heppilegri en þessa. En ef skilja á hæstv. fjármálaráðherra svo, að nota eigi grjótið, sem unnið var, í landsspítalann, þá kemur það illa heim við það, sem sagt er, að verið sje að selja það nú Pjetri og Páli. Þá sagði hann, að það væri sama, hvað frá stjórninni kæmi; menn vildu ekki kannast við neitt gott í fari hennar. Jeg held nú, satt að segja, að ekki sje úr miklu góðu að moða í fari hennar, því að flest verk hennar eru þannig vaxin, að líkast er því, eins og hæstv. fjármálaráðherra komst að orði, að maður sje að lesa „reyfara“, en standi ekki augliti til auglitis við bláberan veruleikann. Maður skyldi ætla, að öll lýsingin á atferli og gerðum stjórnarinnar væri skröksaga frá landi óstjórnarinnar, ef maður gæti ekki þreifað á því. Það er því áreiðanlega ofmælt — ef ekki á að líta á það sem mismæli eða öfugmæli — hjá hæstv. fjármálaráðh., að menn úti um land sjeu harðánægðir með stjórnina og að alþýða áliti þessar ákærur endileysu og illgirni. Jeg vil að eins biðja hv. þm. um að stinga hendinni í sinn eigin barm og vita, hvort þeir hafi ekki heyrt megna óánægju með stjórnina heima í sveit sinni. Jeg þykist vita, að fjármálaráðh. hafi í yfirreið sinni ekki orðið var við mikla óánægju, því menn eru nú yfirleitt talsvert gestrisnir hjer á landi, og kunnugt er það um hæstv. ráðherra, að hann er manna kurteisastur, svo að ekki er það eðlilegt, að þeir bændur, sem hann gisti hjá, hafi farið að ráðast á gerðir stjórnarinnar í það sinnið, er hann bar að garði. Þá væri aftur farið íslenskri gestrisni, ef menn legðu það í vana sinn að troða illsakar að fyrra bragði við gesti sína — og það prúðmannlega gesti, eins og hæstv. fjármálaráðh., enda þá ekki hættulaust, að illindi hefðu af hlotist.

Hæstv. fjármálaráðh. tók það kröftuglega fram, að hann hefði aldrei sagt ósatt í opinberum blöðum eða á opinberum mannfundum. Þetta finst mjer nokkuð ofsagt. Hann hefði getað sagt, að hann hafi aldrei sagt vísvitandi ósatt, því að hitt má sanna með vitnum, að á fundinum út af sykurmálinu sagði hann ósatt, og leiðrjetti stjórnin það síðar.

Enn sagði hæstv. fjármálaráðh., að mjer væri gjarnt að ráðast á sig persónulega, vegna þess, að hann hafi eitt sinn boðið sig fram á móti mjer við kosningar til Alþingis og farið með sigur af hólmi. Jeg hefi aldrei hreyft þessu á þann veg, hvorki í ræðu nje riti og tel hann ósannindamann að þessum áburði, og verð jeg að telja það mjög svo lúalegt og lítilmannlegt að bera mönnum slíkt á brýn. Mættu þá margir vera óvinir hjer og um landið, ef slíkt ætti að skapa fjandskap. Auk þess hefði jeg ekki ástæðu til þess nú að vera reiður ráðherranum af þessum sökum, því að jeg veit ekki betur en að jeg sje nú nokkurn veginn kominn inn í það kjördæmi, og mundi að sjálfsögðu ekki hræddur að mæta honum þar, hve nær sem honum þóknaðist. Mig uggir, að sú ferð yrði ekki til fjár fyrir fjármálaráðherrann. En til þess getur hæstv. fjármálaráðh. ekki ætlast, að jeg eða aðrir hlífum honum, fremur en öðrum, er illa fara með embætti sitt. Hitt er fjarri öllum sanni, að jeg hafi nokkurn tíma ráðist á hann persónulega.

Eitt var það, sem hæstv. fjármálaráðherra var mjög klökkur yfir, og það var, að honum skyldi vera borið það á brýn, að hann vildi hlúa að vinum sínum, og sór hann og sárt við lagði, að hann hefði aldrei hlúð að vinum sínum í embættaveitingum. En þetta er einnig ofmælt. Sumir eru nú þannig skapi farnir, að þeir telja það ekki ámælisvert, því að landsstjórn hlúi að vandamönnum sínum að öðru jöfnu. Og það þykjast menn hafa sjeð, að hæstv. fjármálaráðh. væri hætt við að taka talsvert tillit til þess, hvort vinur og flokksbróðir ætti í hlut, eða þá ekki. Þarf ekki annað í þessu sambandi en að minna á fossanefndina — manninn, sem hann tróð þar inn — og svo er það líka kunnugt, að hæstv. fjármálaráðh. ljet sjer mjög svo umhugað um, að sá maður, sem hann bar sjerstaklega fyrir brjósti, fengi lögreglustjóraembættið hjer í Reykjavík. Það er líka kunnugt, að um eitt skeið ætlaði hann að halda embættinu opnu handa sjálfum sjer, og í raun og veru er ekkert ilt í þessu; ef hann hefir þá trú á sjer, að hann sje embættinu einna best vaxinn allra manna. Og að sjer sleptum mun hann hafa haft bróður sinn í huga áður en þriðji maðurinn kom til sögunnar. (Fjármálaráðherra: Þetta er ósatt.) Jeg hefi fyrir mjer góðar sannanir, og yfirleitt ætti hæstv. fjármálaráðh. ekki að vera að baða út öllum öngum og segjast vera heilagur.

Á síðasta þingi var fjárhagsnefnd Nd. falið það sjerstaklega að athuga fjárhagsástand landsins, og sjerstök nefnd var þá jafnframt skipuð til þess að rannsaka verslunarmálin. Um fjárhaginn komst fjárhagsnefnd að svipaðri niðurstöðu og hæstv. fjármálaráðh., en þó ekki hinni sömu í öllum greinum.

Frá þeirri nefnd komu — eins og þingheimi er kunnugt og öllum landslýð — skýrslur um Tjörnes- og Öskjuhlíðarmálin, en rannsóknir þeirra mála höfðu verið framkv. af krafti. Niðurstaða nefndarinnar um ráðsmensku stjórnarinnar í þeim sökum ætti ekki að vera liðin stjórninni úr minni, en þó leyfir hæstv. fjármálaráðh. sjer að segja, að ekki hafi fundist sakir! Annars þarf jeg ekki að rifja upp þá rollu, en læt mjer nægja að vísa til þess, er ritað hefir verið og rætt í þessum málum, bæði af mjer og ýmsum öðrum hv. þm.

En nefnd sú, er rannsaka átti verslunarmálin, fjekk ekki plögg þau frá landsstjórn og landsverslun, er henni voru nauðsynleg, fyr en áliðið var þingsins, og voru þá tveir úr þeirri nefnd teknir að vinna að sambandsmálinu, svo að það er ekkert undarlegt, þótt ekki kæmi mikið frá þeirri nefnd. En jeg býst við, að störfum hennar verði haldið áfram á næsta þingi. En eitt atriði var þó, sem frá henni kom; það var um sykurmálið, og voru þar færð góð og gild rök fyrir því hneyksli stjórnarinnar, svo að hæstv. fjármálaráðh. þarf ekki að kvarta undan algerðu aðgerðaleysi hennar.

Þá klykti hæstv. fjármálaráðherra út með því, að því er mjer skildist, að hvergi á bygðu bóli mundi vera ráðist á slíka stjórn sem þessa, þar sem hún hefði ráðið til lykta sambandsmálinu.

En hvernig á að þakka henni allri fyrir það, þar sem forsætisráðh. sannanlega og vitanlega er sá eini úr stjórninni, sem nokkuð hefir lagt til þeirra mála. Ef þeir hafa ekki annað en það sjer til varnar og ætla sjer að lafa með af þeim sökum, þá verður sú vörn að teljast æði veigalítil, og næsta fáránleg viðbára. Og jeg mótmæli því algerlega, að þeir tveir hæstv. ráðherrar, sem hjer er rætt um, hafi á nokkurn hátt unnið sjer til sýknunar með því máli, ef þeir á annað borð voru sekir.