06.09.1918
Neðri deild: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

1. mál, dansk-íslensk sambandslög

Benedikt Sveinsson:

Jeg ætla að segja fáein orð, eingöngu um dagskrána.

Um annað málið á dagskránni stendur, að það verði tekið til meðferðar »ef deildin leyfir«. Mjer finst, að eigi hefði síður verið þörf á, hinum sama fyrirvara um fyrra málið á dagakránni. Í 18. gr. þingskapanna segir svo um nefndarálit, að því skuli útbýtt meðal þingmanna á fundi, og enn fremur:

»Eigi má taka málið af nýju til umræðu fyr en að minsta kosti tveim nóttum síðar en nefndarálitinu var útbýtt».

Nú er mál þetta sett fyrirvaralaust á dagskrá og ætlast til, að það sje rætt í dag, þvert ofan í þingsköp, því að svo fer fjarri því, að nefndarálitinu hafi verið útbýtt fyrir tveim nóttum, að það er enn eigi komið í hendur þingmanna. Þessari aðferð mótmæli jeg algerlega; jeg neita því, að það hæfi að taka þetta mál fyrir á annan hátt en fyrir er mælt í 18. gr. þingakapanna. Þetta er hið stærsta mál, sem nokkru sinni hefir lagt verið fyrir Alþingi Íslendinga, hið flóknasta og hið afdrifaríkasta. Það er því hin mesta óhæfa að ætla sjer að flaustra því af með meira flýti en dæmi finnast til að gert hafi verið um nokkur smámál.

Jeg mótmæli því fyrir hönd þjóðarinnar, að þannig sje níðst á stærsta máli hennar, og þingmenn sviftir tíma og tækifæri til að brjóta það sem best til mergjar og íhuga, hvað nefndin hefir um það að segja í áliti sínu.

Að vísu má segja, að þau sjeu farin að tíðkast hin breiðu spjótin hjer í þingi. Það er ekki lengra á að minnast en í vor, er hjer var lagður fyrir þingfund mikilsvarðandi ríkjasamningur og eigi veittur nema rúmur klukkutíma frestur til þess að heyra hann tafsaðan á ensku og íslensku, ræða hann, athuga og samþykkja. Það má telja víst, að það hafi bakað landinu jafnvel tuga miljóna tjón, hve mjög hrapað var að úrslitum þess máls.

Á sama hátt var farið með sambandslagafrv. þetta í sumar; þingmönnum var að eins veittur stundarfjórðungsfrestur til þess að athuga það og athugasemdirnar við það, og þeir látnir binda sig með atkvæðagreiðslu að lítt athuguðu máli.