09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (181)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Flm. (Sigurður Stefánsson):

* [*Ræðu þessa hefir þingmaðurinn (S. St.) hvorki lesið nje leiðrjett. Vill hann, að þess sje getið.]

Jeg verð fyrst að bera af mjer þann áburð hæstv. fjármálaráðherra, að jeg hafi brugðist í fánamálinu á þingi 1913. — Jeg hafði aldrei lofað frv. Nd. neinu fylgi, þar sem jeg lá veikur meðan það var þar til meðferðar. Og það, sem jeg gerði í Ed., er ekki hægt að telja neina brigðmælgi. En einmitt sú afstaða mín til málsins í Ed. þá varð til þess, að málið komst í það horf, sem það nú er i, og við fáum miklu þýðingarmeiri fána en þann, sem þá var um að ræða. Það er því að nokkru leyti mjer að þakka, hvað á hefir unnist.

Þá sagði hæstv. fjármálaráðherra, að það hefði verið mitt mesta áhugamál á síðasta þingi að komast heim. Það eru að vísu hreinustu ósannindi, en hitt er það, að jeg kunni því illa að sitja í tvo mánuði yfir engu, fyrir mistök stjórnarinnar. En að jeg hafi viljað komast heim, sambandsmálinu til skaða, það eru alger ósannindi.

Annars fyrirgef jeg hæstv. fjármálaráðherra stóryrðin í síðustu ræðu hans. Jeg þóttist sjá, að hann væri tæplega „normal“ þá. Og oft hefi jeg sjeð útþaninn vindbelg, en aldrei slíkan. Skil jeg það nú, að hann er „jaloux“ við mig, því þótt hann telji mig vindbelg, þá vantar mikið á, að jeg sje eins út þaninn og hann sjálfur. En nú vona jeg, að mesti vindurinn hafi farið í ræðuna. En yfirleitt var öll ræða hans einn samfeldur reyfari, enda kvað hann lesa mikið reyfara, og trúi jeg því vel, og hefi enda heyrt, að hann lesi ekki aðrar bækur. En betri mynd af reyfara en ræðu hans er ekki hægt að fá, þar sem blandað er saman öfgum, ósannindum og stóryrðum.

Hann taldi það andarlegt og síður en svo til blessunar að vekja þennan kala til stjórnarinnar, einmitt þegar hún væri að gegnumfæra sambandsmálið. En, eins og jeg hefi áður sagt, get jeg ekki þakkað hæstv. fjármálaráðherra neinn hlut í afdrifum þess máls, því úr hans flokki einum komu andmælin, og var hann meira að segja sjálfur á báðum áttum um tíma, hvorum flokknum hann ætti að fylgja.

Jeg vil því halda því fram, að það geti orðið þjóðinni til blessunar að vekja kala til þeirrar stjórnar, sem er jafnóhæf til að standa í stöðu sinni og hæstv. fjármálaráðherra er.

Þá benti hann á það, að jeg hefði sagt við sig á síðasta þingi, að hann hafi þó staðið best í ístaðinu. Það má vel vera, að jeg hafi sagt það. En það sannar ekki neitt, ef hinir gerðu það illa. Og það skal jeg játa, að hæstv. fjármálaráðh. gerði margar tilraunir til þess að standa sæmilega í sínu ístaði, en tókst það mjög báglega.

Hæstv. forseta Ed. (G. B.) skal jeg ekki svara öðru en því, að hafi jeg gert mig að athlægi, þá gerði hann sig að enn þá meira athlægi með sinni ræðu.

Þá verð jeg að víkja nokkrum orðum að hv. Ísaf. (M. T.). Það kom mjer á óvart, að hann skyldi taka sem illmæli um sig þau orð mín, að veiting lögreglustjóraembættisins í Reykjavík hefði tekist vel, frá almennu sjónarmiði. Jeg var þar ekki neitt að verðleggja hann. En það eru aðrir, sem verðlögðu hann í sambandi við embættisdugnað og álit hans í lögsagnarumdæmi hans, og einnig kom álit hans í ljós í umdæmi því, er hann sótti um.

Þegar það heyrðist á Ísafirði, að hann sækti um embætti þetta í Reykjavík, voru gerð almenn áheit á líknarstofnanir allar í guðsþakkarskyni, ef hann fengi embættið. Þótti mönnum því allsúrt í brotið að verða að sitja með hann eftir sem áður.

En síðar frjettist það vestur, að Reykvíkingar hefðu gert samskonar áheit, ef hann fengi ekki embættið, og þótti það þá fara að vonum, að þeim ynnist betur, sem mannfleiri voru.

En hvert meðalverð allra meðalverða verður á kostum og áliti þessa hv. þm. (M. T.) í þessum tveim umdæmum, það læt jeg hann sjálfan um að reikna út.

Jeg hefi svo ekki fleira að segja; þykist líka vita, hvernig atkv. muni falla. Jeg ann þeim sæmdarinnar, sem verða til þess að fella vantraustsyfirlýsinguna. Jeg hefi hvort sem er sjálfur aldrei ætlað mjer að hafa nein fríðindi af stjórninni, hver sem hún er. Ann jeg þeim þess því vel, sem ætla sjer að hafa gagnsemi af þessari stjórn í framtíðinni.