09.09.1918
Sameinað þing: 3. fundur, 30. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (182)

5. mál, vantraustsyfirlýsing

Fjármálaráðherra (S. E.):

Að eins örstutt athugasemd. Verður hún því fremur stutt, þar sem báðir hv. þm., sem jeg þarf að svara, eru þegar dauðir.

Jeg get farið fljótt yfir sögu um hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Hann taldi mig hafa verið mjög æstan, er jeg hjelt síðustu ræðu mína. En það er venjulega síðasta ráðið, sem andstæðingar mínir grípa til, að segja, að jeg hafi verið æstur, ef jeg tala með áherslu. En sá, sem hefir hreinustu fyrirlitnigu á ýmsu því, sem fer fram í kringum hann, hann hlýtur að leggja áherslu á orð sín.

Annars bjóst jeg ekki við því, að hjer yrði talað um framburð manna, og allra síst að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) yrði til þess að vekja máls á því efni. Því skilvinduhljóðið í ræðum hans er hreinasti kross á þessari deild. Og enginn hv. þm. ber eins þunga ábyrgð á dottinu í deildinni eins og hann.

Þessi hv. þm. (G. Sv.) virtist ekki skilja það, að grjótið hafi verið ætlað til landsspítalans, þar sem nú væri þegar farið að selja það. En svo stendur á því, að landsstjórnin hefir enn ekki fengið lóð þá hjá bænum, sem ákveðin var undir spítalann, og það þrátt fyrir það, þótt á samningum væri byrjað um þetta í fyrra haust. Þetta var ófyrirsjáanlegt, og er því nú farið að selja grjótið.

Þá kvaðst hann ekki marka það mikið, þótt jeg á yfirreið minni hefði hitt velviljaða menn. En jeg skal þá geta þess, að á Akureyri, þar sem óánægjan er talin mest með stjórnina, þar hjelt jeg fund, ásamt hv. þm. bæjarins (M. K.), og höfðum við fundinn algerlega á okkar bandi, og var mjer hvað eftir annað tekið með lófaklappi.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði um, að mjer væri gjarnt að hlynna að mönnum af persónulegum ástæðum. Benti hann á fossanefndarskipunina. Jeg get sagt honum það, að til mín komu ýmsir menn úr Árnessýslu og ljetu þá ósk í ljós við mig, að maður þaðan úr sýslunni yrði skipaður í nefndina. Þótti mjer þetta ofureðlileg krafa; og hvað var ónáttúrlegt við það að skipa þá sýslumanninn í nefndina? (S. S.: Árnesingar munu nú samt ekki hafa ætlast til þess.) Það er og ósatt með öllu, að jeg hafi nokkurn tíma ætlað mjer að koma bróður mínum í lögreglustjóraembættið hjer í Reykjavík, enda þótt jeg telji hann vel hæfan í það. Sje jeg svo ekki ástæðu til að svara fleiru í ræðu hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.).

Þá er hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Hann neitaði því, að hann hafi nokkurn tíma brugðist í fánamálinu. 1913 vorum við þó 7 þm. í efri deild, sem höfðum ákveðið að samþykkja fánafrv. Einn af þeim var hv. þm. N.-Ísf. (S. St.). Þá var það einn þingmannanna, sem óskaði þess, að frv. yrði ekki rætt, heldur samþykt hljóðalaust. Við það varð hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) æfur og kvaðst ekki treysta sjer til að þegja. Svo líður og bíður. En 20 mín. áður en atkvæðagreiðslan átti að fara fram komu skilaboð frá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) um, að hann geti ekki greitt atkv. með frv. Af þessu sló óhug á okkur hina, fyrst af því, að við treystumst þá ekki að koma málinu fram, og svo af því, að þessi hv. þm. (S. St.) gat verið þektur fyrir að koma svona fram. Og það verð jeg að segja, að jeg hefi aldrei sjeð jafnlítinn vind í þessum hv. þm. og daginn eftir að þetta skeði.

Í sumar var þessi sami hv. þm. (S. St.) óður eftir að komast heim. Hann skildi ekki, hvað væri verið að gera hjer. Ef hann hefði ráðið, hefðu samningarnir aldrei komist í það lag, sem raun varð á. Það situr því síst á honum að vera að gera sig að dómara yfir öðrum. Það er lítið af framkvæmdum í hans löngu þingsögu. Hann hefir altaf verið „kritiserandi“. Í efri deild hefir hann árlega haldið eina skammaræðu um neðri deild og margar um meðbræður sína.

Mjer hefir verið ánægja að því að eiga orðastað við hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og hv. 1. þm. Rang. (E. P.), sem hjelt mjög hóglega ræðu. En jeg skal játa, að vantraustsyfirlýsing frá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) og tilheyrandi skammaræður hafa haft þau áhrif á mig, að mjer hefir aukist traust á sjálfum mjer.